Innlent

Óttast að þúsundir farfugla muni drepast í hretinu

Jóhanna Margrét Gísladóttir. skrifar
Fuglafræðingur óttast að þúsundir farfugla muni drepast í vorhretinu sem gengur nú yfir landið. Hretið er það versta á sex ár.

Hálka, skafrenningur og éljagangur eru orð sem við heyrum ekki oft um miðjan maí en það er sá veruleiki sem íbúar á norðanverðu landinu vöknuðu við í morgun. Óveður gekk yfir landið í gærkvöldi og höfðu björgunarsveitir og lögregla í nægu að snúast meðal annars vegna fjúkandi steinhnullunga á Austfjörðum. Á Ísafirði lágu flugsamgöngur niðri fram eftir degi í dag og bátar voru bundnir við bryggju. Þessir vösku strákar létu þó veðrið ekki aftra sér að fara út í fótbolta.

Smáfuglarnir verða fyrir miklu raski í svona vorhreti, sérstaklega farfuglar sem eru nýkomnir til landsins frá heitari löndum.

„Ef þessi hret eru hörð og löng eins og þetta virðist ætla að vera og þá drepast þessir fuglar sem eru hvað viðkvæmastir, fyrst og fremst þeir fuglar sem byggja á skordýrum," segir Ólafur Karl Níelssen fuglafræðingur.

Hann segir hret sem þessi hafa komið undanfarin ár en ekki svona slæmt síðan árið 2006.

„2006 var mjög slæmt , þetta virðist ætla að vera svipað og 2006 og þá drápust þeir í þúsundatali hér á norðausturlandi og svo var líka slæmt hret 2010 og 2011," segir Ólafur Karl.

Samkvæmt upplýsingum frá veðurstofunni er versta veðrið gengið yfir. Áframverður þó kalt fram eftir vikunni og ekki búist við að snjó fari að leysa fyrren um helgina. Þá er að vona að sumarið fari að taka við eftir langan vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×