Innlent

Brynjar Níelsson: Heimild til þess að refsa piltunum, annað er þvæla

Mynd / / Haraldur Jónasson
„Ég er ósáttur við að það sé ráðist að dómnum og verjandanum og þeir séu sakaðir um að brjóta reglur, en allt saman er þetta rangt," segir hæstaréttarlögmaðurinn Brynjar Níelsson sem er jafnframt formaður Lögmannafélags Íslands, í viðtali við Reykjavík síðdegis í dag, en þar gagnrýndi hann umræðuna um tvo flóttamenn sem hingað komu til lands og voru dæmdir í 30 daga fangelsi fyrir skjalafals í Héraðsdómi Reykjaness.

Eins og kunnugt er þá segjast piltarnir vera 15 og 16 ára gamlir, þó lögreglan á Suðurnesjum hafi gefið það út að grunur leiki á að þeir séu eldri. Þegar í ljós kom að þeir höfðu verið dæmdir og vistaðir í fangelsi, var öðrum þeirra komið fyrir á Fit-Hostel, þar sem flóttamenn sem hingað koma búa, en hinum var komið fyrir á einkaheimili.

Dómurinn hefur vakið hörð viðbrögð. Meðal annars gagnrýndi Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, niðurstöðuna harðlega og sagði að ef um íslensk ungmenni hefði verið að ræða hefðu þau líklega ekki fengið svo þungan dóm.

Brynjar bendir á að báðir piltarnir séu sakhæfir, en sakhæfisaldur hér á landi eru fimmtán ár. Þá gagnrýnir hann þá orðræðu þar sem því er haldið fram að dómi hafi gerst brotlegur við samninga um réttarstöðu flóttamanna, sem er ekki lögfestur hér á landi. Brynjar bætir við piltarnir hafi ekki verið dæmdir sem flóttamenn, heldur hafi þeir verið dæmdir fyrir skjalfals, enda framvísuðu þeir fölsuðum vegabréfum við komuna hingað til lands.

Þá bendir Brynjar einnig á að staðan hafi ekki verið sú að piltarnir hafi verið að koma beint frá landi þar sem lífi þeirra og frelsi hafi verið ógnað, þeir hafi verið að koma frá Finnlandi.

„Þeir uppfylla ekki nein þessi skilyrði sem þarf, því er heimild til þess að refsa þeim, og annað er þvæla," segir Brynjar.

Hann gagnrýnir einnig þingheim harðlega fyrir að gagnrýna verjanda piltanna, sem Brynjar segir að hafi mátt þola óvægna umræðu á þingi þar sem hann gat ekki andmælt þeim ásökunum sem á hann voru bornar.

„Mér finnst það ómaklegt og menn eiga ekki að vega að mönnum í þingsal þar sem viðkomandi getur ekki svarað fyrir sig," sagði Brynjar.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Brynjar í Reykjavík síðdegis, hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×