Innlent

Bjarni fundaði með utanríkisráðherra Breta

Breki Logason skrifar
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins.
William Hague utanríkisráðherra Bretlands segir það almennt sjónarmið ríkjanna innan Evrópusambandsins að færeyingar og íslendingar séu of stífir þegar kemur að samningaviðræðum um makríldeiluna svokölluðu. Þetta segir Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins sem fundaði með ráðherranum í London í gær. Þeir ræddu einnig evrukrísuna og stöðuna sem komin er upp vegna erfiðleika grikkja.

Bjarni hitti Hague í utanríkisráðuneytinu í London í gær og segir hann að um mjög góðan fund hafi verið að ræða. „Ég vildi notað tækifærið og skýra sjónarmið okkar varðandi makríldeiluna. Einnig vildi ég koma því á framfæri að setji Evrópusambandið heimildir til refsiaðgerða brjóti það gegn skilmálum EES-samningsins og reglna Alþjóðaviðskiptastofnunar. Auk þess vildi ég ítreka það að sé vilji íslendinga að ná niðurstöðu í þessu máli og Evrópusambandið muni gera rangt með því að setja málið í þann hnút sem það gerir, gangi þeir lengra á þessari braut," segir Bjarni í samtali við fréttastofu.

Bjarni segir ráðherrann hafa þakkað fyrir þessar útskýringar en hafi sagt að það væri almennt sjónarmið ríkjanna í Evrópusambandinu að Færeyingar og Íslendingar væru of stífir í viðræðunum.

Þá fóru þeir Bjarni og Hague einnig yfir evrukrísuna og segir Bjarni augljóst að staðan sem upp er komin vegna erfiðleika grikkja sé að yfirtaka alla stjórnmálaumræðuna í evrópusambandslöndunum. „Seðlabanki Bretlands lýsti yfir í gær miklum áhyggjum á að krísan geti haft áhrif á breska efnahaginn og það mun geta ráðið mjög miklu um framtíð Evrópusambandssamstarfsins hvernig muni spilast úr evrúkrísunni á næstu mánuðum," segir Bjarni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×