Innlent

OLÍS og Verkís sækja um Drekasvæðið með erlendu félagi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Umsóknir um olíuleit á Drekasvæði verða kynntar síðdegis.
Umsóknir um olíuleit á Drekasvæði verða kynntar síðdegis.
Olíuverslun Íslands og Verkfræðistofan Verkís eru meðal eigenda nýstofnaðs íslensk olíuleitarfélags sem í samstarfi við erlent olíuleitarfélag sendi inn umsókn í Drekasvæðið í morgun. Þar með er ljóst að minnst tvær umsóknir berast áður en frestur rennur út klukkan fjögur í dag.

Fréttastofan greindi í síðustu viku frá olíuleitarfélaginu Kolvetni ehf. sem Jón Helgi Guðmundsson, aðaleigandi BYKO, Verkfræðistofan Mannvit, Gunnlaugur Jónsson og norskur olíuforstjóri, Terje Hagevang, hafa stofnað í þeim tilgangi að senda inn umsókn um Drekasvæðið í samstarfi við fjársterkt erlent olíufélag.

Nú hefur annað íslenskt olíuleitarfélag verið stofnað í sama tilgangi og það sem meira er: Það sendi inn umsókn sína í morgun. Það félag heitir keimlíku nafni og hitt, eða Íslenskt kolvetni, Iceland Petroleum, en að því standa verkfræðifyrirtækið VERKÍS, Olíuverzlun Íslands, það er Olís, og félagið Dreki Holding, sem nokkrir einstaklingar standa að.

Stjórn Íslensks Kolvetnis skipa: Kristján Jóhannsson, stjórnarformaður, Gísli Baldur Garðarsson, Þröstur Ólafsson, Eldur Ólafsson og Valgarð Már Valgarðsson. Framkvæmdastjóri er Þorkell Erlingsson.

Fyrirtækið sækir um í samstarfi við erlent olíuleitarfélag, en nafn þess verður birt síðar í dag, og segir það markmið sitt að byggja upp traustan grunn að íslenskri þekkingu á olíuurannsóknum og olíunýtingu. Þannig geti Íslendingar verið virkir þátttakendur í þeirri olíuleit og vinnslu sem vaxandi líkur séu á að verði að veruleika á Drekasvæðinu.

Fyrirtækið kveðst vera í stakk búið til að standa undir þeirri fjárhagslegu áhættu sem fylgi því að rannsaka og síðar meir bora í þeim tilgangi að leita að olíu á Drekasvæðinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×