Innlent

Fá ekki rafmagn fyrir fiskimjölsverksmiðjur

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Hægt væri að spara hundruð milljóna í gjaldeyri með því að raforkuvæða íslenskar fiskimjölsverksmiðjur. Þetta segir rekstrarstjóri verksmiðju HB Granda á Akranesi. Rafmagnið hefur hins vegar ekki fengist.

Fiskimjölsverksmiðjan á Akranesi sem hefur á núverandi loðnuvertíð unnið úr yfir 40 þúsund tonnum af loðnu og er hún keyrð allan sólarhringinn eingöngu á steinolíu. Olíureikningur verksmiðjunnar í febrúar síðastliðnum var hátt í 90 milljónir króna og segir rekstrarstjórinn að hægt væri að spara gríðarlegan gjaldeyri með að keyra að rafmagni í staðinn.

„Við myndum losna við alla olíu hérna út, losna við mengun og Co útslepp og lækka rekstrarkostnaðinn verulega," segir Björn Almar Sigurjónsson, rekstrarstjóri fiskmjölsverksmiðja HB Granda.

Hann segir að fyrirtækið hafi sótt um að fá raforku en ekki fengið.

„Ástand Orkuveitunnar leyfir það ekki, þeir þurfa að breyta dreifikerfinu og það hefur ekki gengið upp, þeir fara ekki í neinar framkvæmdir," segir Almar.

Verksmiðja HB Granda á Vopnafirði er einungis keyrð á rafmagni og er hún sú eina hér á landi, Björn Almar segir félag fiskimjölsframleiðenda hafa barist fyrir því í áratug að rafvæða verksmiðjur sínar við dræmar undirtektir stjórnvalda og raforkufyrirtækja.

„Mér sýnist þetta mest á orði en ekki á borði, þessar yfirlýsingar allavega frá ríkisstjórn um að nota innlenda orku, það er allavega ekki að ganga upp gagnvart nokkrum verksmiðjum sem keyra á olíu, allavega fjórar eða fimm sem gætu nýtt rafmagn ef það væri fyrir hendi," segir Almar og bætir við: „ Það er bæði þekking og reynsla innan þessa fyrirtækis og landinu sjálfu með að gera þetta, það er ekkert mál."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×