Innlent

Margfaldur munur á gjaldtöku banka

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar
Margfaldur munur er á gjaldtöku banka við skuldaraskipti á íbúðalánum, Landsbankinn rukkar minnst en Frjálsi fjárfestingarbankinn og Íslandsbanki innheimta prósentu af lánsupphæð. Talsmaður neytenda telur óeðlilegt að innheimta hlutfallsgjald af slíkri skjalagerð.

Fólk sem er ósátt við gjaldtöku bankanna við ýmis konar skjalagerð leitaði til fréttastofu og taldi að óeðlilega há gjöld væru innheimt af ýmis konar skilmálabreytingum, m.a. vegna skuldaraskipta. En þau eiga sér stað þegar Jón kaupir íbúð af Gunnu og yfirtekur lán Gunnu þá þarf að skipta um nafn skuldara á skuldabréfinu. Slík breyting heitir skuldskeyting á bankamáli.

Fréttastofa kannaði málið hjá bönkunum, sem allir birta verðskrár á heimasíðum sínum. Landsbankinn tekur 10 þúsund krónur fyrir slíka skuldaraskipti, Arion banki 15 þúsund krónur, Íslandsbanki tekur hins vegar hlutfall af lánsupphæð, eða 0,25%, að lágmarki 5000 krónur og sama hlutfall er hjá Frjálsa fjárfestingarbankanum en þar er lágmarkið 10 þúsund krónur.

Fréttastofa fékk afrit af svona skuldaraskiptum, sem staðfesta að Arion banki rukkar 15 þúsund krónur af nafnabreytingu sem er töluvert hagstæðara en fyrir þá sem tóku upphaflega lán hjá Frjálsa. Einn slíkur er rukkaður um 39 þúsund krónur fyrir slíka nafnabreytingu - og annar um hátt í 44 þúsund krónur sem er er fjórum sinnum meira en væri hann hjá Landsbankanum.

Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, sagði í samtali við fréttastofu að sér þætti ekki eðlilegt að rukka prósentutölu af lánsupphæð við skuldaraskipti, eðlilegast væri að innheimta fasta krónutölu í samræmi við kostnað bankans - sem sveiflist varla í takt við lánsupphæð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×