Innlent

Endurteknar yfirlýsingar ráðherra um uppbyggingu ekki enn ræst

Kristján Már Unnarsson skrifar
Samningi um kísilver á Suðurnesjum hefur verið rift en honum lýstu forystumenn ríkisstjórnarinnar sem mikilvægum skilaboðum um að menn hefðu trú á framtíðinni á Íslandi. Ítrekaðar yfirlýsingar ráðherra undanfarin tvö ár, um að Þingeyingar ættu að búa sig undir stórfellda atvinnuuppbyggingu, hafa heldur ekki ræst.

Það ríkti bjartsýni við undirritun samnings um kísilver í Helguvík fyrir rúmu ári, þann 17. febrúar í fyrra. Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra sagði í Duus-húsi í Keflavík að samningurinn væri ísbrjótur í atvinnumálum Suðurnesja og fjármálaráðherrann þáverandi, Steingrímur J. Sigfússon, sagði samninginn skilaboð um að menn hefðu trú á framtíðinni á Íslandi.

Ráðamenn kísilfélagsins, með bandaríska fyrirtækið Globe Speciality Metals sem aðalfjárfesti, ætluðu að hefja framkvæmdir í fyrravor en báðu reglulega um nýja fresti og fór svo að Landsvirkjun rifti samningum fyrir helgi vegna vanefnda.

Þingeyingar bíða einnig eftir því að ítrekaðar yfirlýsingar ráðherra rætist, eins og þær sem Katrín Júlíusdóttir iðnaðaráðherra hefur gefið um að samfélagið þar ætti að búa sig undir stórfellda atvinnuuppbyggingu. Þessu lýsti hún fyrst yfir í viðtali á Stöð 2 í október 2010, og síðan ítrekað á Alþingi, bæði í mars og júní á síðasta ári, en þá sagði hún alveg ljóst að samkomulag um sölu orkunnar í Þingeyjarsýslum, við einn eða fleiri kaupendur, yrði gert á komandi mánuðum.

Ekkert bólar enn á slíku samkomulagi. Fréttastofan hefur ítrekað leitað eftir viðtölum við ráðmenn Landsvirkjunar undanfarna daga um stöðu mála án árangurs.

Ofangreindar yfirlýsingar ráðherranna má sjá í frétt Stöðvar 2.

 



 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×