Innlent

Tjónum á lögreglubílum hefur fækkað umtalsvert

Lögreglubílar á Íslandi lentu 80 sinnum í tjóni á síðasta ári. Kostnaður vegna þessa nam 7,3 milljónum króna. Tjónum hefur fækkað mikið síðustu ár en árið 2007 voru þau 140 talsins og 168 árið 2008. Þetta kemur fram í skýrslu sérstaks starfshóps sem ætlað er að hafa eftirlit með öllu því er varðar ökutæki og tækjabúnað lögreglunnar. Í skýrslu hópsins sem nú er komin út segir að það sé mat manna að þessa fækkun tjóna megi meðal annars rekja til þess að akstur lögreglubíla hefur dregist verulega saman og að námskeið í forgangsakstri hafi skilað árangri. Aðhald frá starfshópnum hefur einnig skilað árangri.

151 ökutæki er til umráða hjá lögreglunni og er það svipaður fjöldi og verið hefur undanfarin ár. Á síðasta ári óku lögreglubílar tæpar fjórar milljónir kílómetra en þar er um 29 prósenta samdrátt að ræða ef miðað er við árið 2007. Tjónakostnaður 2010 var 8,4 milljónir króna og því hefur sá kostnaður lækkað um rúma milljón á milli ára.

Flest verða tjónin hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu en þar eru líka flest ökutækjanna. Lögreglan á Eskifirði er með lakasta árangurinn en þar urðu átta tjón á síðasta ári og kostuðu þau 2,2 milljónir króna. Í því umdæmi voru 160 þúsund kílómetrar eknir í fyrra og kostnaður vegna tjóna því um fjórtán krónur á kílómeter. Lögreglan í Reykjavík ók hinsvegar 1,3 milljónir kílómetra og því nemur kostnaður á hvern ekinn kílómetra þar 2,5 krónum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×