Innlent

Frægir deyja þegar fótboltamaður skorar mark

Boði Logason skrifar
Fjórir hafa dáið eftir að Aaron Ramsey skorar. Tilviljun, segir talnaspekingur.
Fjórir hafa dáið eftir að Aaron Ramsey skorar. Tilviljun, segir talnaspekingur. Samsett mynd Vísir
„Þetta er ótrúlegt. Tölurnar geta komið manni á óvart í sambandi við hvað sem er en ég held að þetta geti allt eins verið tilviljun," segir Hermundur Rósinkranz, talnaspekingur og miðill. Stuðningsmenn Arsenal í Bretlandi tengja nú dauða söngdívunnar Whitney Houston við miðjumann liðsins, hinn velska Aaron Ramsey.

Í hvert einasta skipti sem miðjumaðurinn skorar þá deyr einhver frægur. Whitney Houston var sú fjórða síðan í maí á síðasta árið.

Í maí skoraði Ramsey á móti Manchester United og daginn eftir var hryðjuverkamaðurinn Osama Bin Laden drepinn. Í október skoraði hann gegn Tottenham Hotspurs og þremur dögum síðar lést forstjóri Apple, Steve Jobs. Síðar í þeim mánuði skoraði Ramsey á móti Marseille í Meistaradeildinni. Daginn eftir var leiðtogi Líbíu drepinn.

Og á laugardaginn skoraði Ramsey á móti Sunderland en Whitney fannst látin á hótelherbergi sínu sama dag.

Hermundur hefur mikið spáð í tölur síðustu ár en hann segir að ekki sé hægt að segja neitt til um þessa ótrúlegu tilviljun. Aaron Ramsey spilar í treyju númer 16. „Einn og sex þýðir heimili og fjölskylda og sjálfstæði. Hún gefur einnig töluna 7, einn plús sex, en það er hin guðlega tala og henni getur oft fylgt andlát," segir Hermundur en tekur þó fram að Ramsey þurfi ekkert að passa sig sérstaklega á því að skora ekki. „Ég ætla að fylgjast með þessum gaur, ég þori ekkert að segja til um þetta en mín tilfinning er sú að þetta sé tilviljun."

Whitney Houston dó þann 11. febrúar en Hermundur segir að sú tala beri alltaf með sér fréttir. „Þessi dánardagur mun verða minnistæður. Það er mjög merkilegt að margir í tónlistarbransanum deyja á milli 20 og 30 ára og 40 og 50 ára. Það stendur upp úr - það er svolítið skrýtið. Þetta er líka oft fólk sem er mjög stórt í umhverfinu og hefur mikil áhrif. Afhverju, veit ég ekki. Ég skil ekki afhverju það getur ekki lifað til sjötugs," segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×