Innlent

Snorri í leyfi vegna ummæla um samkynhneigða

Snorri Óskarsson, kennari á Akureyri sem oftast er kenndur við Betel, hefur verið sendur í tímabundið leyfi frá störfum vegna ummæla sinna um samkynhneigða á bloggsíðu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Akureyrarbæ.

„Akureyrarbæ hefur verið legið á hálsi að bregðast ekki við ummælunum. Það skal upplýst að árið 2010 brugðust skólayfirvöld við ummælum umrædds kennara um samkynhneigð þar sem honum var gert að láta af slíkum meiðandi ummælum. Því var brugðist umsvifalaust og hart við þeim ummælum sem nú eru til umræðu. Var málið þegar í stað sett í það lögformlega ferli sem starfsmannaréttur og stjórnsýslulög gera ráð fyrir hjá hinu opinbera," segir í tilkynningu frá Akureyrarbæ.

Í tilkynningunni segir jafnframt að starfsmannamál séu trúnaðarmál og því geti Akureyrarbær ekki gert opinbert hver niðurstaða málsins sé að öðru leyti en því að hann hafi verið sendur í tímabundið leyfi frá störfum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×