Innlent

Gréta Salóme: Þvæla að lagið sé stolið

Jón Jósep Snæbjörnsson og Gréta Salóme Stefánsdóttir munu flytja lagið Mundu eftir mér á sviðinu í Bakú í maí. Gréta segir að lagið sé ekki stolið.
Jón Jósep Snæbjörnsson og Gréta Salóme Stefánsdóttir munu flytja lagið Mundu eftir mér á sviðinu í Bakú í maí. Gréta segir að lagið sé ekki stolið. Mynd/Daníel Rúnarsson
„Ég var tólf ára þegar þetta lag var samið og ég var að heyra það í fyrsta skiptið núna," segir Gréta Salóme Stefánsdóttir, höfundur og annar flytjandi lagsins Mundu eftir mér, sem sigraði Söngvakeppni Sjónvarpsins á laugardaginn.

Aðstandendur vefsíðunnar Nýtónlist.net halda því fram að lagið sé sláandi líkt laginu Álfakóngurinn, sem kom út árið 1998. Höfundur lagsins segir lögin ekki lík.

„Ég var ein í Skálholtskirkju þegar ég samdi mitt lag og gerði það af heilindum. Ég hef aldrei heyrt þetta lag áður, eins og ég segi var ég tólf ára þegar það kom út. Eina sem er líkt með þessum lögum er að þetta eru þjóðlagakennd lög. Ef það er bannað er ég ansi hrædd um að margir væru í slæmum málum. Ég er sammála öllum á netinu sem segja að þetta sé þvæla, ef það væri þannig að það væri bannað að semja lög í líkum stíl þá væru öll lögin sem voru á laugardaginn ólögleg," segir Gréta Salóme í samtali við Vísi.

Höfundur Álfakóngsins sammála Grétu Salóme

Höfundur lagsins Álfakóngurinn er Heimir Sindrason en lagið kom út árið 1998. „Ég er bara montinn. Það er ekki fræðilegur möguleiki að lagið sé stolið. Það er þjóðlegur blær yfir lögunum, ég samdi mitt lag með það fyrir augum og ég held að Gréta hafi gert það líka. Líkindin fóru nú ekki að renna upp fyrir mér fyrr en menn fóru að tala um þetta," segir hann og bendir á að þrátt fyrir að hafa verið bent á líkindin sé hann ekki enn farinn að heyra að lögin séu lík.

Söngkonurnar Guðrún Gunnarsdóttir og Klara Ósk Elíasdóttir, í hljómsveitinni The Charlies, sungu lagið á sínum tíma. „Þetta er fyrsta lagið sem Klara syngur. Ég heyrði Klöru syngja á ættarmóti á sínum tíma og heyrði að hún hafði þessa undurfögru rödd. Ég tel mig hafa uppgötvað hana," segir hann kíminn. „Ef lagið mitt fær byr undir báða vængi þætti mér það ekkert verra. En að lag Grétu sé stolið er ekki fræðilegur möguleiki. Frammistaða Grétu Salóme á laugardaginn var bara frábær, ég kaus meira að segja lagið, ég er bara montinn af henni," segir hann.

Frí frá Sinfó

Gréta Salóme segir að nú sé undirbúningur að hefjast fyrir keppnina í Aserbaídsjan í maí. „Við erum búin að vinna eins og skepnur síðustu vikur og hlökkum til að takast á við þetta verkefni. Við ætlum að komast eins langt og við getum," segir hún en hún er í fullri vinnu hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands.

„Við þurfum að skila öllu af okkur um miðjan mars og erum byrjuð að vinna á fullu í því. Ég ætla að taka mér smá hlé frá Sinfó á meðan við útsetjum lagið og pælum aðeins meira í því," segir hún að lokum.Hægt er að hlusta á lögin tvö, Álfakóngurinn og Mundu eftir mér, á Nýtónlist.net.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.