Innlent

Kafbátanjósnastöðin var eitt mesta hernaðarleyndarmálið

Kristján Már Unnarsson skrifar
Svæði á Suðurnesjum, sem áður geymdi njósnastöð og eitt helsta hernaðarleyndarmál kalda stríðsins, er nú orðið aðgengilegt almenningi. Friðþór Eydal, fyrrverandi upplýsingafulltrúi Varnarliðsins, er að skrifa bók þar sem hann hyggst upplýsa um ýmis mál sem Íslendingar hafa til þessa haft litla vitneskju um.

Í frétt Stöðvar 2 í kvöld voru sýndar myndir af fjarskiptaskermunum á Stafnesi, sem voru áberandi og margir muna eftir, en þeir voru inni á lokuðu bannsvæði á Suðurnesjum. Nokkur hundruð metrum sunnar var hins vegar önnur stöð sem minna var vitað um, enda var hún njósnastöð og eitt mesta hernaðarleyndarmál kalda stríðsins.

Stöð 2 sýndi myndir af stöðinni leynilegu sem teknar voru með aðdráttarlinsu árið 1994 en á seinni árum hefur komið í ljós að stöðin, sem byggð var árið 1966, gegndi lykilhlutverki í SOSUS-kafbátanjósnakerfinu um þrjátíu ára skeið. Hún var við Þórshöfn, milli Hafna og Sandgerðis,og þar inni voru fullkomnustu tölvur sem Bandaríkjaher réði yfir á þeim tíma, sem höfðu það hlutverk að leita eftir og greina hljóð sem kjarnorkukafbátar gáfu frá sér.

Nokkrir af merkustu áföngum í kafbátanjósnasögu NATO náðust í þessari stöð. Árið 1968 tókst stöðinni í Keflavík, fyrst allra, að greina hljóð úr tveimur gerðum sovéskra kjarnorkukafbáta, bæði svokallaðra Victor og Charlie-kafbáta, og árið 1974 varð hún fyrst til að greina hljóð úr Delta-kafbátum Sovétmanna.

Í stokki í fjörunni liggur enn hlustunarkapall sem tengdi stöðina við gríðarmikið kaplakerfi í Norður-Atlantshafi. Friðþór Eydal segir að þetta kerfi hafi gefið Bandaríkjamönnum og NATO gríðarmikið forskot og vísbendingar séu um að Sovétmenn hafi ekki gert sér grein fyrir hversu skilvirkt kerfið var fyrr en fyrrverandi bandarískur hermaður, John Walker, gerðist njósnari og laumaði leyndarmálunum til Sovétmanna í kringum 1980.

Bílastæði njósnastöðvarinnar er enn á sínum stað en byggingarnar voru rifnar áður en herinn fór. Friðþór ætlar að greina frá þessu og fleiri gömlum leyndarmálum í bók sem hann vinnur að um sögu Varnarliðsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×