Innlent

Framboðsfrestur rennur út eftir þrjá og hálfan mánuð

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hefur enn ekki tekið af öll tvímæli um hvort hann gefi kost á sér til áframhaldandi starfa næsta kjörtímabil. Framboðsfrestur rennur út eftir þrjá og hálfan mánuð.

Þó Ólafur hafi gefið það í skyn í nýársávarpi sínu að hann ætli ekki að bjóða sig fram aftur líta margir svo á að hann hafi heldur ekki lokað á þennan möguleika.

Ólafur hefur ekki viljað skýra mál sitt frekar þegar fjölmiðlar hafa leitað til hans og það hefur það ýtt undir þær vangaveltur að hann vilji í raun sitja eitt kjörtímabil í viðbót.

Þessi þögn Ólafs hefur skapað mikla óvissu i kringum forsetakosningarnar enda vilja ekki allir bjóða sig fram gegn sitjandi forseta.

Forsetakosningarnar fara fram 30 júní næstkomandi en framboðsfrestur rennur út í lok maí eða eftir þrjá og hálfan mánuð. Frambjóðendur þurfa að safna fimmtán hundruð meðmælendum auk þess að undirbúa kosningabaráttur en slíkt kostar pening og er ekki gert á einum degi.

Helstu stuðningsmenn Ólafs hafa skorað á hann að halda áfram og hafa safnað tuttugu og átta þúsund undirskriftum.

Ólafur Ragnar fór ásamt Dorrit Moussaief, forsetafrú, til Suðurskautslandsins í lok síðasta mánaðar en kemur aftur til Íslands í þessari viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×