Enski boltinn

Balotelli: Ég er ekki skúrkur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Mario Balotelli segir að það hafi ekki verið sanngjarnt að dæma hann í fjögurra leikja bann fyrir að traðka á Scott Parker í leik Manchester City og Tottenham um helgina.

Howard Webb, dómari leiksins, tók ekki eftir atvikinu og því var það tekið fyrir af aganefnd enska knattspyrnusambandsins sem komst að áðurnefndri niðurstöðu.

„Ég er ekki skúrkur eða ofbeldisfullur leikmaður," sagði Balotelli við enska fjölmiðla. „Ég andmæli ekki leikbanninu því ég get ekki sannað sakleysi mitt. En ég reyndi ekki að traðka með hælnum á Parker."

Balotelli byrjaði að taka út bannið í gær og missti því af leik City og Liverpool í enska deildabikarnum. Leiknum lauk með 2-2 jafntefli en Liverpool komst áfram á samanlögðum úrslitum.

„Ég vona að þeir geti breytt úrslitum leiksins eftir á því það var það sem þeir gerðu með Mario," sagði Roberto Mancini, stjóri City. „Dómarinn var tíu metrum frá atvikinu og hefði getað rekið Mario af velli - ekki eftir leikinn þegar hann var búinn að sjá myndband af því."

„En þetta er búið og gert og ekkert við því að gera. Við misstum Vinny [Vincent Kompany] í fjögurra leikja bann og nú Mario líka."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×