Innlent

Segir endurgreiðsluna skipta sköpum

Helga Margrét Reykdal
Helga Margrét Reykdal
Eftirlitsstofnun EFTA samþykkti í dag tillögur íslenskra stjórnvalda um breytingar á ríkisaðstoð vegna kvikmyndagerðar hér á landi. Helga Margrét Reykdal hjá True North segir niðurstöðuna vera afar jákvæða fyrir íslenskra kvikmyndagerð.

„Þetta þýðir að Ísland er samkeppnishæft við önnur lönd þegar kemur að því að fá verkefni eins og Oblivion hingað til lands." Þetta sagði Helga í samtali við útvarpsþáttinn Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag.

Helga segir að það sé gríðarlega mikilvægt fyrir íslenska ríkið sem og íslenska kvikmyndagerð að fá stór verkefni hingað til lands. Þá skilaði framleiðsla Oblivion um 700 milljónum króna í ríkiskassann.

„Stórmynd sem tekin er upp hér landi getur skilað 300 milljónum og allt upp í milljarð," segir Helga. „Það veltur á því hversu margir tökudagarnir séu og hvert umfang framleiðslunnar er."

Hún fagnar samþykkt EFTA. Þá bendir hún á að kvikmyndagerðarmenn rýni í marga þætti þegar kemur að því að velja tökustað. Náttúra Íslands leikur stórt hlutverk í þessu mati en hún ræður þó ekki úrslitum. Endurgreiðsla á hluta framleiðslukostnaðar sé aftur á móti nauðsynlegur þáttur í endanlegu vali framleiðenda.

Hægt er að hlusta á viðtal við Helgu hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×