Innlent

Axlarbrotinn heldur Gerðahverfi hreinu

Þrátt fyrir veikindi og axlabrot hefur Sigtryggur Helgason bætt ásýnd hverfisins sem hann býr í með því að tína upp rusl og uppræta illgresi. Á veturna lýsir hann upp skammdegið með litskrúðugum jólaseríum við hús sitt.
Fréttablaðið/GVA
Þrátt fyrir veikindi og axlabrot hefur Sigtryggur Helgason bætt ásýnd hverfisins sem hann býr í með því að tína upp rusl og uppræta illgresi. Á veturna lýsir hann upp skammdegið með litskrúðugum jólaseríum við hús sitt. Fréttablaðið/GVA
„Ef ég væri ekki að finna mér eitthvað svona þá lægi ég bara uppi í rúmi í þunglyndi,“ segir Sigtryggur Helgason, íbúi í Hlyngerði í Reykjavík, sem í sumar hefur haldið hverfinu sín hreinu og snyrtilegu.

„Ég er með vírbursta og hreinsa allt gras af gangstéttunum, við kantsteina og þar sem það er upp við veggi og set eitur. Síðan sópa ég svo allt sé hreint og fínt. Svo hjálpa ég líka sumum nágrönnum mínum með því að fara aðeins inn á lóðirnar þeirra,“ segir Sigtryggur, sem sjálfsagt er þekktastur meðal samborgaranna fyrir viðamiklar ljósaskreytingar við hús sitt um jólin.

Eiginkona Sigtryggs lést fyrir þremur árum. Sjálfur verður hann 82 ára eftir tvo mánuði. Hann segist hafa tekið upp á því í hittiðfyrra að snyrta til í hverfinu en hafi þó verið of veikur til þess í fyrra. Í sumar hafi hann reynt eftir mætti að koma hlutunum í betra horf.

„Ég hef verið að gera þetta eins og ég haft heilsu til en ég get lítið gert því ég er axlarbrotinn og verð bara að vera á hnjánum og nota vinstri höndina,“ segir Sigtryggur. Hann kveðst fara um á jeppanum sínum með stóra svarta ruslapoka í skottinu. „Ég er með fötu sem ég hvolfi úr í pokann því að ég get ekki lyft 50 kílóa poka með vinstri hendinni. Þannig að ég geri þetta á þann máta sem mér tekst.“

Fyrr í sumar safnaði Sigtryggur rusli í 25 stóra poka og kom þeim upp á Sorpu með sendibílum. Verst segir hann ástandið hafa verið á göngustíg á milli gatnanna. „Það var alveg hrikalegt,“ segir hann og undirstrikar að mikilvægt sé að hafa hverfið snyrtilegt. Því virðist fleiri vera sammála.

„Nágrannarnir eru afskaplega glaðir og mjög jákvæðir. Það er mikið atriði hjá mér að fá fólk til þess að brosa og vera glatt,“ segir hann um viðbrögð fólks í hverfinu. Aðspurður segir Sigtryggur þó enga hafa slegist í lið með honum:

„Ég kæri mig heldur ekkert um það – ég vil bara vera einn í þessu og er á lokastigi með þetta. Á eftir að sópa og taka tvær lóðir,“ segir Sigtryggur og heldur ótrauður áfram.

gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×