Innlent

Laugardalshrottinn ákærður

Árásin átti sér stað á göngustíg í Laugardal.
Árásin átti sér stað á göngustíg í Laugardal.

Ríkissaksóknari hefur ákært karlmann á þrítugsaldri fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir hrottalega líkamsárás í Laugardal í Reykjavík síðastliðið haust.

Maðurinn er ákærður fyrir að hafa ráðist með ofbeldi á stúlku sem þá var sextán ára á göngustíg í Laugardalnum í Reykjavík. Árásin átti sér stað mánudaginn 11. október 2010. Manninum er gefið að sök að hafa slegið stúlkuna ítrekað með hörðu áhaldi í höfuð og tekið hana hálstaki og þrengt að þar til hún missti meðvitund. Afleiðingar ofbeldisins urðu þær að stúlkan hlaut langan skurð á hnakka hægra megin, djúpan langan skurð á enni, brot á nærkjúku hægri vísifingurs og víða mar.

Maðurinn var handtekinn um það bil mánuði eftir ofbeldisverkið. Hann játaði í kjölfarið að hafa ráðist á stúlkuna. Málið vakti þá mikinn óhug, ekki síst þar sem árásin átti sér stað um miðjan dag. Stúlkan komst við illan leik upp á Suðurlandsbraut, þar sem vegfarandi kom henni til aðstoðar og hringdi á sjúkrabíl. Árásin var fólskuleg og algjörlega fyrirvara- og tilefnislaus. Maðurinn bar við minnisleysi vegna fíkniefnaneyslu í skýrslutökum hjá lögreglu.- jss





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×