„Ég held að það verði erfitt að toppa þetta," segir Guðni Þorri Egilsson, nýkrýndur „Þorri landsmanna" 2011.
Ölgerðin efndi til keppni um nafnbótina í tilefni bóndadagsins en þann dag kom Egils Þorrabjór í áfengisverslanir. Allir sem báru nafnið Þorri voru gjaldgengir í keppnina og skráðu fjölmargir Þorrar sig til leiks.
Guðni Þorri þótti hins vegar bera höfuð og herðar yfir aðra Þorra, enda var hann einungis klæddur þingeyskum boxer-nærbuxum sem móðir hans, Sigurlína Jóhanna, prjónaði á hann.
„Mamma er að selja svona buxur, svo það var fínt að auglýsa þá gömlu aðeins," segir Guðni Þorri og hlær.
„Annars var þetta aldrei nein spurning. Þú ættir bara að sjá myndirnar af hinum strákunum, þetta segir sig sjálft," segir Guðni Þorri í léttum dúr, en það kom í hlut Egils „Gillz" Einarssonar að velja sigurvegarann. - ka
Sigraði í prjónaðri brók frá mömmu
