Innlent

Hið augljósa var vel falið

Sorpbrennslan Funi í Skutulsfirði Rætt var og ritað um mengun frá Funa árum saman. Hins vegar á það ekki við um díoxín-mælinguna 2007, þvert á það sem haldið hefur verið fram. mynd/halldór sveinbjörnsson
Sorpbrennslan Funi í Skutulsfirði Rætt var og ritað um mengun frá Funa árum saman. Hins vegar á það ekki við um díoxín-mælinguna 2007, þvert á það sem haldið hefur verið fram. mynd/halldór sveinbjörnsson

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra ætlar að láta gera óháða rannsókn á Funamálinu. Hér er saga málsins, sem nú má kalla mengunarhneyksli, rakin.

Um miðjan desember sendi Mjólkursamsalan frá sér fréttatilkynningu þar sem fram kom að vinnslu mjólkur frá bænum Efri-Engidal í Skutulsfirði hefði verið hætt að kröfu Matvælastofnunar þar sem þrávirk aðskotaefni, og þar á meðal eitrið díoxín, hefði mælst yfir viðmiðunarmörkum í mjólk frá bænum.

Það sem hér vekur athygli er að mælingin er gerð af fyrirtæki sem ber engin skylda til að gera rannsókn eins og þessa. Forstjóri MS, Einar Sigurðsson, sagði hins vegar í viðtali við Fréttablaðið að MS hefði brugðist við eftir fyrirspurnir frá íbúum á svæðinu sem vildu vita hvort sorpbrennsla í Funa væri það mengandi að það mældist í afurðum frá bænum, sem stendur 1,5 kílómetra frá sorpbrennslunni.

Viðbrögð bæjaryfirvalda á Ísafirði, þegar mælingin lá fyrir, voru að senda frá sér tilkynningu þess efnis að mælingin hefði ekki varpað skugga á heilnæmi Skutulsfjarðar en það var harmað að hætta þurfti mjólkurvinnslu á einum bæ.

Steingrímur Jónsson, bóndi á Efri-Engidal, lýsti síðan áhyggjum sínum af heilsu sinni og framtíð vegna málsins í viðtali við Fréttablaðið rétt fyrir áramótin.

Hræðilega ljótt

Umræða um mengun frá Funa er ekki ný af nálinni. Fréttamiðlar Vestfirðinga hafa undanfarin ár reglulega greint frá óþægindum íbúa vegna hennar. Fyrstu fréttirnar af mengunarmælingum birtust í Bæjarins besta árið 2004 og Morgunblaðið fjallaði einnig um málið af og til frá 2003. Hins vegar var sá fréttaflutningur byggður á takmörkuðum upplýsingum þar sem forráðamenn fyrirtækisins og sveitarfélagsins, og sérfræðingar sem leitað var til, gerðu ávallt lítið úr málinu. Hvimleið sjónmengun var viðkvæðið þá og allar götur til ársloka 2010 en árið 2009 sýndu mælingar að þungmálmar og ryk var langt yfir mörkum.

Hér eru síðan ótalin öll skrif íbúa á Ísafirði. Lengi vel fór fremstur í flokki Pétur Tryggvi Hjálmarsson silfursmiður sem strax árið 2003 lýsti áhyggjum sínum af því að hugsanlega væri sorpbrennslan að dæla díoxíni og öðrum eiturefnum yfir svæðið. Ólína Þorvarðardóttir alþingismaður skrifaði einnig greinar þar sem áleitnum spurningum um hugsanlega mengunarhættu var komið á framfæri.

Mengun

Hvað mengunina frá sorpbrennslunni Funa varðar má til hægðarauka skipta málinu í tvennt. Annars vegar nær það til þeirrar mengunar sem mæld var í gegnum árin samkvæmt kröfum í starfsleyfi Funa og varð til þess að Umhverfisstofnun (UST) tók að gera alvarlegar athugasemdir við reksturinn árið 2009.

Í bréfum UST kemur fram að í mælingum í útblæstri Funa voru þungmálmarnir nikkel, arsen, blý, króm, vanadíum og kopar langt fyrir mörkum. Ryk mældist þá einnig rúmlega fimm sinnum meira en starfsleyfi kvað á um.

Það er þessi mengun sem fréttamiðlar greindu frá enda lágu mælingagögn fyrir að einhverju leyti.

DíoxínHins vegar er það díoxín og önnur þrávirk aðskotaefni í útblæstri. Árið 2007 var gerð fyrsta og eina díoxín-mælingin í Funa, sem og öðrum sorpbrennslum hér á landi, samkvæmt þeim kröfum sem gerðar voru til stöðvanna þegar Evróputilskipun um sorpbrennslu var tekin upp hér árið 2003. Þessi eina mæling var hluti af undanþágu sem stjórnvöld náðu fram að kröfu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Allar aðrar mælingar frá Funa segja því ekkert um hvort eða hversu mikið af þrávirkum aðskotaefnum voru í útblæstri frá sorpbrennslunni fyrir árið 2007 og síðar. Hins vegar mældist díoxín í þetta eina skipti 20 sinnum meira en viðmiðunarmörk gera ráð fyrir í útblæstri. Afneitun

Þegar Fréttablaðið greindi frá niðurstöðu díoxín-mælingarinnar árið 2007 í forsíðufrétt 3. janúar var því haldið fram að Ísfirðingum hefði ekki verið greint frá niðurstöðunni. Var sú fullyrðing byggð á ítarlegri leit í fjölmiðlum frá löngu tímabili og viðtölum við íbúa á Ísafirði.

Halldór Halldórsson, fyrrverandi bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, sagði í viðtali vegna fréttarinnar að niðurstöður mælinga hefðu verið kynntar jafn óðum opinberlega og „engu hafi verið stungið undir stól“. Undir orð Halldórs tók Daníel Jakobsson, eftirmaður hans í bæjarstjórastóli, sem nú hefur beðið umbjóðendur sína afsökunar á því hvernig starfsemi Funa var háttað. Eins er viðurkennt að það „hefði átt að ræða niðurstöður mælinga af meiri festu og kanna betur hvað í þeim fælist og kynna þær fyrir bæjarbúum“.

Halldór hefur skrifað um málið á bloggsíðu sinni síðan fréttin fór í loftið. Þar minnir hann enn á að mengun frá Funa hafi verið umfjöllunarefni fjölmiðla en gerir þó engan greinarmun á þeirri mengun sem skylt var að mæla samkvæmt starfsleyfi og díoxín-mælingunni árið 2007. Hann segir að áhyggjur hafi lengi verið til staðar og þess megi finna stað í fundargerðum umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar. Þetta er sjálfsagt rétt upp að vissu marki en ekki hvað varðar díoxín-mælinguna. Það hafa fulltrúar sem sátu í umhverfisnefnd á sínum tíma staðfest, nú síðast á bæjarstjórnarfundi á Ísafirði á fimmtudaginn.

Bæjarstjórnarfundur

Eins og málið stendur núna virðist það fyrst og síðast snúast um stjórnsýslu Ísafjarðarbæjar og eftirlitsaðilana sem fara með mengunarmál í landinu. Hvort mengun frá Funa hefur haft skaðleg áhrif á umhverfið og heilsu fólksins á svæðinu verður ekkert fullyrt um. Það kemur ekki í ljós fyrr en niðurstöður frekari rannsókna liggja fyrir. Á það við um næstu misseri og ár.

Á bæjarstjórnarfundi á Ísafirði á fimmtudag var Funamálið til umræðu. Þar kom fram svo ekki verður um villst að bæjaryfirvöld vissu ekki af díoxín-mælingunni árið 2007 eða kosnir fulltrúar gerðu sér ekki grein fyrir því hvað mæligögnin voru að segja þeim.

Þetta liggur fyrir: 16. október barst bænum bréf frá UST þar sem kemur fram að díoxín hafi mælst svo hátt sem raun ber vitni. Bréfið var ekki lagt fram í umhverfisnefnd, bæjarráði eða bæjarstjórn. Formlegt áminningarbréf frá því í maí 2010, þar sem díoxín-mælingin kemur aftur fyrir, var lagt fram þremur mánuðum eftir að það barst bæjaryfirvöldum. Þá vaknar spurningin um það hvar upphaflegt bréf UST er niður komið þar sem greint var frá díoxín-mælingunni þegar niðurstöður hennar lágu fyrir. Það hlýtur að vera til.

Þá er vert að halda því til haga að innan Ísafjarðarbæjar störfuðu tveir hópar að endurskoðun sorpmála á þeim tíma sem stöðin mengaði hvað mest. Mengunin virðist þó ekki hafa komið til umfjöllunar þar, eins og Kristín Hálfdánsdóttir bæjarfulltrúi sagði á bæjarstjórnarfundinum á fimmtudaginn, en hún leiddi annan hópinn.

Áframhaldið

Bæjarstjórn Ísafjarðar hefur beðist afsökunar á Funamálinu. Forstjóri UST segir að stofnunin hafi brugðist og er þeirrar skoðunar að það eigi líka við um umhverfisráðuneytið.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra ætlar að láta óháðan aðila kryfja Funamálið; allir sem höfðu aðkomu að því, frá sorpbrennslu til ráðuneytis, falla undir rannsóknina. Markmiðið er að leiða í ljós mögulega ábyrgð en fyrst og fremst að draga lærdóm af því sem hefur gerst og leita tækifæra til úrbóta.

Úrbótavinnan er reyndar hafin innan Ísafjarðarbæjar og umhverfisnefnd Alþingis mun næstu þrjár vikur skoða lagaumgjörð með tilliti til upplýsingaskyldu stjórnvalda og fleira.

Á meðan bíður Sveinbjörn Jónsson og eiginkona hans á Efri-Engidal eftir að Matvælastofnun fái niðurstöður díoxín-mælinga að utan. Það sama á við um aðra sem hafa lifað og starfað í nágrenni Funa, eins og starfsmenn sorpbrennslunnar sem bæjarfulltrúar Ísafjarðar vilja að læknar skoði sérstaklega.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×