Innlent

Jóel litli kominn með vegabréf

Ingimar Karl Helgason skrifar
Íslensk stjórnvöld hafa gefið út vegabréf fyrir Jóel Færseth Einarsson, sem hefur verið fastur á Indlandi ásamt foreldrum sínum frá því fyrir jól. Viðbúið er að þau komist heim til Íslands á næstu dögum.

Helga Sveinsdóttir og Einar Færseth, eignuðust Jóel litla úti á Indlandi. Þarlend kona gekk með hann fyrir greiðslu og var hann tekinn með keisaraskurði 13. nóvember. Alþingi veitti honum íslenskan ríkisborgararétt fyrir jólin. Hins vegar hafa Helga og Einar hafa ekki komst með hann heim, þar sem dregist hefur að gefa út fyrir hann vegabréf, þar sem óvíst hefur verið hver fari með forræði Jóels litla, að lögum.

Nú hafa íslensk stjórnvöld, eftir því sem fréttastofa kemst næst, gefið út vegabréf fyrir drenginn. Sendiráðunautur frá íslenska sendiráðinu í Nýju Delí - hélt af stað í dag til Shennaí, þar sem Helga og Einar hafa dvalist undanfarnar vikur, í því skyni að afhenda þeim vegabréfið.

Það er hins vegar dálítill spölur þarna á milli og þegar fréttastofa náði tali af Einari Færseth fyrr í dag, höfðu þau Helga ekki fengið vegabréf Jóels í hendur.

Eftir því sem fréttastofa kemst næst - en ekki fengið staðfest - hafa indversk stjórnvöld samt ekki gefið ákveðin svör um forræðið.

Viðbúið er að Jóel og foreldrar hans geti komið heim fljótlega - en það eina sem gæti tafið málið úr þessu - eftir því sem fréttastofu er sagt - væri ef indversk stjórnvöld veittu ekki brottfararleyfi.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×