Innlent

Ekkert lát á snjóhreinsun um áramótin

Borgarbúar tókust á við mikið fannfergi í gær og í dag.
Borgarbúar tókust á við mikið fannfergi í gær og í dag. Mynd/GVA
Starfsmenn sem sinna snjóhreinsun og sorphirðu hafa átt langa vinnudaga að undanförnu og ekki verður mikil hvíld um áramótin. Vinna við snjóhreinsun hefst klukkan fjögur að morgni gamlársdags og verður unnið fram eftir degi. Þá eru einnig vaktir á nýársdag og aukamannskapur verður ræstur út eftir þörfum.

Undanfarna daga hefur verið unnið í öllum hverfum borgarinnar. Um 70 starfsmenn á vegum borgarinnar og verktaka á hennar vegum er í vinnu við snjóhreinsun og hafa þeir 50 tæki til verksins, 39 gröfur og 11 vörubíla. Eins og Fréttablaðið greindi frá var gærdagurinn snjóþyngsti dagur í áratugi. Og snjóhreinsun stefnir í að verða afar kostnaðarsöm fyrir Vegagerðina og borgina.

Í dag færðist athyglin meira að efri byggðum þar sem færð var tekin að þyngjast eins og í Grafarholti þar sem snjó hefur skafið. Í dag huguðu starfsmenn Reykjavíkurborgar einnig að niðurföllum en spáð hefur verið hlýindum með kvöldinu og því þótti rétt að hafa varann á. Íbúar eru hvattir til að huga að niðurföllum sem og að slá niður grýlukerti þar sem hætta er á að þau geti fallið á fólk.

Starfsmenn í sorphirðu hafa einnig unnið langa daga og verða þeir við störf á gamlársdag til að vinna upp þá töf sem hefur orðið á sorphirðu vegna þungrar færðar. Þrátt fyrir þunga færð er sorphirða þó aðeins degi á eftir upphaflegri áætlun. Á sorphirðudagatali á vef Reykjavíkurborgar má sjá hvenær sorp verður næst hirt. Íbúar eru hvattir til að hreinsa frá sorptunnum þá daga sem sorphirðan er á ferðinni. Í dag og á gamlársdag er unnið í Fossvogi og Breiðholti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×