Innlent

Strætóferðir til Hafnar hafnar

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Í Landeyjahöfn Eftir áramótin verður hægt að ferðast með strætó til Landeyjahafnar og austur á Höfn í Hornafirði.
Í Landeyjahöfn Eftir áramótin verður hægt að ferðast með strætó til Landeyjahafnar og austur á Höfn í Hornafirði. Fréttablaðið/Stefán
Samgöngur Frá og með 2. janúar verður hægt að ferðast um Suðurland með strætó, allt frá Reykjavík og austur á Höfn í Hornafirði. Fjölgun leiða er sögð liður í stórfelldri stækkun þjónustusvæðis Strætó bs. í samstarfi við Samtök sunnlenskra sveitarfélaga (SASS).

„Eitt samtengt leiðakerfi verður allt frá Höfn í Hornafirði og til Reykjavíkur, um uppsveitir Árnessýslu, niður í Þorlákshöfn og Landeyjahöfn. Þessi breyting felur m.a. í sér að fleiri Sunnlendingar eiga möguleika á að sækja vinnu til höfuðborgarsvæðisins og gagnkvæmt,“ segir í tilkynningu Strætó.

Fargjöld verða lægri og tímaáætlanir leiðanna verða samræmdar, svo farþegar komist hraðar á milli staða. Suðurlandi er skipt í mismunandi gjaldsvæði og fargjöld miðast við fjölda gjaldsvæða sem farið er um.

Akstur hefst á fimm nýjum leiðum í ársbyrjun, en á tveimur þeirra, leið 72 frá Selfossi upp á Laugarvatn og leið 73 frá Selfoss að Flúðum, þarf að bóka ferð með minnst tveggja tíma fyrirvara. „Og á leið 51 þarf að panta far milli Víkur og Hafnar fyrir klukkan 18 daginn áður.“

Haft er eftir Þorvarði Hjaltasyni, framkvæmdastjóra SASS, að þar á bæ séu bundnar miklar vonir við nýtt samræmt almenningssamgöngukerfi á Suðurlandi.

„Ég skora á Sunnlendinga að nýta sér þá auknu þjónustu sem býðst með því. Enginn vafi er á því að um verulegan sparnað getur verið að ræða fyrir almenning, auk þjóðhagslegs og umhverfislegs ávinnings,“ segir hann.

Upplýsingar um strætósamgöngur á Suðurlandi er að finna á www.straeto.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×