Lífið

Natalie orðin ritstjóri í Berlín

Natalie G. Gunnarsdóttir plötusnúður hefur komið sér vel fyrir í Berlín og er tónlistarritstjóri hjá þýska blaðinu Honk-Magazine.
Natalie G. Gunnarsdóttir plötusnúður hefur komið sér vel fyrir í Berlín og er tónlistarritstjóri hjá þýska blaðinu Honk-Magazine. Mynd / Anna Marín Schram
„Ég kann mjög vel við mig í Berlín enda suðupottur af alls konar fólki og menningu," segir Natalie G. Gunnarsdóttir plötusnúður, sem nýlega tók við starfi ritstjóra tónlistar hjá þýska blaðinu Honk Magazine.

Natalie flutti út í byrjun sumars og getur ekki hugsað sér betri stað til að vera á. En hvernig kom til að hún gerðist ritstjóri tónlistar hjá Honk Magazine?

„Berglind Ágústdóttir, vinkona mín hérna úti, benti mér á að blaðið væri að leita að fólki í vinnu. Við vorum tvö að keppast um starfið og þurftum að skrifa eina grein til að sanna okkur," segir Natalie en svo skemmtilega vildi til að verkefni hennar var að taka viðtal við íslensku sveitina Steed Lord. „Hljómsveitarmeðlimirnir eru vinir mínir svo við rúlluðum þessu upp saman og starfið var mitt."

Honk Magazine er tónlistarblað sem reynir að fjalla um það ferskasta sem er að gerast í tónlist hverju sinni og koma nýjum og efnilegum listamönnum á framfæri. „Þó að þetta sé þýskt blað þá er það skrifað á ensku, sem betur fer því ég tók bara frönsku í menntaskóla," segir Natalie og bætir við að íslenskir listamenn hafi fengið mikla athygli hjá blaðinu en bæði Jónsi og GusGus eru tilnefnd til tónlistarverðlauna blaðsins. „Ég hvet alla til að kjósa á heimasíðunni honk-mag.com og styðja íslensku listamennina."

Natalie hefur samt ekki sagt skilið við plötusnúðastarfið og hefur verið að flakka milli Berlínar og Kaupmannahafnar til að spila á ýmsum stöðum. „Maður verður að sjá til þess að fólk fái að hreyfa á sér rassinn endrum og eins." - áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.