Lífið

Kynnir náttúru Íslands í háloftunum

Hafsteinn Júlíusson vöruhönnuður.
Hafsteinn Júlíusson vöruhönnuður. Fréttablaðið/Valli
„Þetta er alveg frábært og við höfðum fulla trú á að okkar tillaga væri flottust," segir vöruhönnuðurinn Hafsteinn Júlíusson, sem bar sigur úr býtum í samkeppni Icelandair og Hönnunarmiðstöðvarinnar.

Keppnin gekk út á að hanna nýjar matarumbúðir fyrir Icelandair, en fjórtán tillögur bárust í keppnina. Hafsteinn rekur hönnunarfyrirtækið HAF ásamt Daníel Ólafssyni og eiginkonu sinni, Karítas Sveinsdóttur. „Við byrjuðum að vinna í þessu í lok ágúst og töluðum við flugfreyjur og unnum alls konar rannsóknarvinnu á bak við þetta," segir Hafsteinn glaður í bragði enda fékk hann eina milljón í verðlaun.

Tillaga Hafsteins nefnist Náttúrulega, þar sem ætlunin er að kynna náttúru Íslands og sérkenni þess fyrir farþegum. „Þetta snýst um að taka náttúru Íslands og tengja hana við matarupplifun farþeganna um borð í flugvélunum. Hver og einn réttur er eitthvað ákveðið íslenskt náttúruelement, eins og til dæmis stuðlaberg. Þá kemur rétturinn í umbúðum sem lítur út eins og stuðlaberg og inni í þeim er servíetta þar sem hægt er að nálgast upplýsingar um til dæmis hvar á landinu stuðlaberg er að finna og hvernig það hefur haft áhrif á íslenska byggingarlist."

Hafsteinn er nýfluttur heim frá Mílanó á Ítalíu og segir sigurinn gefa sér byr undir báða vængi. „Ég bjóst ekki endilega við því að það yrði mikið að gera eftir að ég kæmi heim en það hefur verið alveg nóg og ég dembi mér strax í næsta verkefni." -áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.