Lífið

Sólstafir fá góða dóma

Meðbyr Þungarokkssveitin Sólstafir á dyggan aðdáendahóp erlendis.
Meðbyr Þungarokkssveitin Sólstafir á dyggan aðdáendahóp erlendis.
Mikill meðbyr er með þungarokkssveitinni Sólstöfum um þessar mundir. Þýska ritið Der Spiegel útnefndi hana mikilvægustu metalplötu mánaðarins.

„Við höfum fengið helvíti góða dóma fyrir tvær síðustu plötur en þetta er búið að vera miklu meira. Ég hef ekki séð einn einasta dóm sem er undir meðallagi, þetta er allt saman upp á 8 til 10,“ segir Guðmundur Óli Pálmason, trommuleikari þungarokkssveitarinnar Sólstafa. Plata þeirra, Svartir sandar, kom út í Evrópu og Norður-Ameríku í október og hefur þegar fengið mikla athygli og lofsamlega dóma.

Guðmundur segir þá hæstánægða með viðtökurnar út um allan heim. „Í gær birtist til dæmis dómur um plötuna okkar í Der Spiegel sem er stærsta dagblað Þýskalands. Þeir fjalla um einhverjar fimm plötur á mánuði þannig að það er mjög sjaldgæft að komast þar inn.“ Þýska ritið valdi plötuna mikilvægustu metalplötu mánaðarins, ásamt tveimur öðrum, og gaf henni 8,5 í einkunn.

Hér heima hefur plötunni einnig verið tekið vel og hún situr nú í tólfta sæti á lista yfir mest seldu plötur landsins. Að sögn Guðmundar hafa orðið miklar breytingar á þungarokkssenunni hérlendis síðan 1995 þegar Sólstafir tóku til starfa. Þá hafi verið hægt að telja þungarokkara landsins á fingrum beggja handa og ólíklegt að finna plötur þeirra á metsölulistum. „Þetta er búið að breytast í dag, nú er til dæmis Skálmöld að fylla Nasa. Þetta er allt að lifna við hérna heima líka.“

Nóg er að gera fram undan hjá hljómsveitinni. „Það er allt að verða alveg fullbókað núna. Þetta byrjar allt á fullu í mars á næsta ári og við erum eiginlega orðnir uppbókaðir frá mars og út sumarið. Við verðum svo með útgáfutónleika hérna heima í febrúar þannig að við þurfum að fara að koma okkur í form aftur.“

bergthora@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.