Innlent

Leiðtogafundurinn á hvíta tjaldið

Fundur Ronalds Reagan og Mikhaíls Gorbatsjov í Reykjavík var sögulegur í meira lagi. Nú hyggst Ridley Scott gera kvikmynd um hvað fór fram á bak við luktar dyr Höfða sem heimsbyggðin beið eftir að myndu opnast.
Fundur Ronalds Reagan og Mikhaíls Gorbatsjov í Reykjavík var sögulegur í meira lagi. Nú hyggst Ridley Scott gera kvikmynd um hvað fór fram á bak við luktar dyr Höfða sem heimsbyggðin beið eftir að myndu opnast.
Breski leikstjórinn Ridley Scott virðist hafa tekið miklu ástfóstri við Ísland. Samkvæmt erlendum kvikmyndavefjum tókust samningar milli framleiðslufyrirtækisins Headline Pictures og Scotts á kvikmyndahátíðinni í Cannes um að hann myndi leikstýra kvikmynd um leiðtogafund Reagans og Gorbatsjovs í Reykjavík.

Það vakti mikla athygli á Íslandi fyrir fjórum árum þegar Scott viðraði þá hugmynd sína um að gera kvikmynd um þennan merkilega fund sem talinn er hafa lagt grunninn að því að kalda stríðið lognaðist útaf. Fyrri framleiðendur myndarinnar áttu fund með þáverandi borgarstjóra, Vilhjálmi H. Vilhjálmssyni, um að fá afnot af Höfða en þeir eru nú horfnir á braut. Og síðan hefur ekkert frést af gangi mála og almennt var talið að Scott væri hreinlega hættur við verkefnið og það dottið upp fyrir.

Bloggsíða kvikmyndavefsíðunnar Indiewire greinir frá þessu á heimasíðu sinni og vitnar í kvikmyndaritið Screen Daily. Þar kemur fram að vinnuheiti myndarinnar sé Reykjavík. „Allir héldu að þetta væri dautt en nú virðist hafa verið blásið nýju lífi í það. Þetta gæti orðið Frost/Nixon-mynd frá Scott. Ef það kemur ekkert meira spennandi í staðinn," skrifar blaðamaður Indie Wire.

Scott var staddur hér á landi fyrir skemmstu að skoða tökustaði fyrir kvikmynd sína, Prometheus, og því gæti það allt eins orðið að leikstjórinn yrði viðloðandi á landið í dágóðan tíma. - fgg



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×