Lífið

Gaf sjálfri sér sigurinn í afmælisgjöf

Laufey Haraldsdóttir er fyrsta stelpan til að vera í sigurliði Gettu Betur.
Laufey Haraldsdóttir er fyrsta stelpan til að vera í sigurliði Gettu Betur.
„Hún er ennþá að síast inn, þessi sigurtilfinning,“ segir Laufey Haraldsdóttir, einn þriggja liðsmanna í Gettu betur-liði Kvennaskólans í Reykjavík.

Liðið bar sigurorð af liði MR í spurningakeppni framhaldsskólanna á laugardagskvöld í beinni útsendingu Sjónvarpsins í æsispennandi keppni. Úrslitin réðust á síðustu spurningu en Laufey segir sjálf að hún og liðsfélagar hennar, þeir Bjarki Freyr og Bjarni Lúðvíksson, hafi eflaust verið þau rólegustu í salnum.

Laufey á afmæli í dag, verður nítjan ára og það var því varla hægt að hugsa sér betri afmælisgjöf, að hrifsa míkrafóninn sögufræga úr höndum erkifjendanna í MR.

Árangur Laufeyar er hins vegar enn merkilegri í ljósi þess að henni tókst loksins að rjúfa þykkan karlamúr spurningakeppninnar. Því í langri sögu Gettu betur hefur engin stelpa verið í sigurliði. Laufey viðurkennir að sú staðreynd sé eilítið yfirþyrmandi. „Hún er eiginlega fjarstæðukennd en mjög góð.“

Laufey fór hina hefðbundnu leið í Gettu Betur-liðið, fór í inntökuprófið og var meðal þriggja efstu. Hún upplýsir jafnframt að fjölskyldan elski spurningaleiki, þau séu hálfgerð nörda-fjölskylda sem spili Trivial Pursuit af miklum móð og horfi á Gettu betur saman í sófanum og keppa innbyrðis sín á milli. „Og þá tapaði ég alltaf,“ segir Laufey sem getur hins vegar gengið stolt um stofugólfið heima eftir frækna frammistöðu á laugardagskvöldinu.

Gettu Betur og þátttakan í þeirri keppni þykir ákaflega tímafrek og raunar tímaþjófur frá námi en Laufey lætur það hins vegar ekkert á sig fá. Því hún hafði varla tíma til að spjalla, hún situr nefnilega í stjórn leikfélags Kvennaskólans sem er á fullu við að undirbúa frumsýningu. Og eins og það sé ekki nóg þá var Laufey einnig í Morfís-liði skólans sem tapaði fyrir Versló í sextán-liða úrslitum keppninnar.

freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.