Innlent

Skammdegið reynist köttunum erfitt

Húskötturinn í Kattholti er alltaf með endurskinsmerki.
Húskötturinn í Kattholti er alltaf með endurskinsmerki. Fréttablaðið/Vilhelm
Það sem af er nóvembermánuði hefur Kattholt fengið óvenjumarga ketti til sín sem fundist hafa dauðir og keyrt hefur verið á. Nú hafa tólf kettir, sem ekki hefur verið hægt að rekja til eigenda sinna, fundist dauðir, en á vef Kattholts er greint frá slíkum atvikum. Til samanburðar má nefna að í október voru slík tilvik aðeins fjögur talsins.

„Þetta eru þau tilvik þar sem við finnum ekki eigendur þannig að talan er í raun hærri, þetta er bara brot af þeim,“ segir Elín G. Folha, starfskona Kattholts.

„Þetta er svartasta skammdegið og fólk þarf að setja endurskin á kisurnar sínar. Við erum með húskött hér, hann Bjart, og hann fer aldrei út eftir að það fer að dimma nema með endurskinsól sem er sett undir hálsinn og svo undir magann.“

„Þetta er allt of mikið og slysin verða mikið í minni hverfum þar sem hámarkshraði er þrjátíu. Skyggni hefur verið slæmt síðustu vikur og kettir eru snöggir að skjótast fyrir bíla þannig að þetta er ekki bara bílstjórunum að kenna en ég grátbið fólk að virða hámarkshraða í þessum hverfum, kettirnir eru ekkert að þvælast hjá hraðbrautunum, þeir hafa vit á því. En svo er bara að leyfa köttunum helst ekkert að fara út eftir að tekur að skyggja. Ég leyfi mínum ketti ekki að fara út eftir myrkur,“ segir Anna Kristine Magnúsdóttir, formaður Kattavinafélags Íslands. Anna Kristine segir mikilvægt að bílstjórar sem lendi í því að keyra á ketti hringi á lögregluna til að láta vita. Kannski sé kötturinn jafnvel ekki dáinn og þar geti hver mínúta skipt máli.

Ómar F. Dabney, rekstrarfulltrúi hjá meindýravörnum Reykjavíkurborgar, telur að árlega drepist á bilinu 70-100 kettir í umferðinni.

juliam@frettabladid.isAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.