Innlent

Sótt yrði að Íslandi úr nokkrum áttum

Samningi sem fyrir lá sumarið 2009 var mótmælt harðlega.
Samningi sem fyrir lá sumarið 2009 var mótmælt harðlega. Mynd/Vilhelm Gunnarsson

Ef Icesave-deilunni verður ekki lokið með samkomulagi er fyrirsjáanlegt að Bretar og Hollendingar munu mögulega hefja málsókn og halda því meðal annars fram að ríkisstjórn eða ráðherrar hafi gefið bindandi yfirlýsingar um að greiða fjárhæðir sem þeir innleystu til reikningseigenda. Að auki mun ESA (eftirlitsstofnun EFTA) að öllum líkindum fara af stað með samningsbrotamál gegn Íslandi. Þá er líklegt að Bretar og Hollendingar (og jafnvel aðrar þjóðir) muni halda uppi að minnsta kosti svipuðu andófi gegn Íslandi og íslenskum hagsmunum og hingað til. Það hefur birst í andstöðu þeirra við lánveitingar og aðra fyrirgreiðslu, til dæmis hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Evrópska framkvæmdabankanum og fleiri aðilum.

Stefán Már Stefánsson

Þetta kemur fram í umsögn fjögurra lögfræðinga, Stefáns Más Stefánssonar prófessors, Benedikts Bogasonar héraðsdómara, Dóru Guðmundsdóttur aðjúnkts og Stefáns Geirs Þórissonar héraðsdómslögmanns um Icesave-frumvarpið sem þingið hefur til meðferðar.

Lögfræðingarnir eru ekki á einu máli um líklega niðurstöðu af dómstólaleiðinni. Versta niðurstaðan fyrir Ísland yrði að kröfur Breta og Hollendinga yrðu teknar til greina að öllu leyti. Ólíklegt teljist að dómur um fulla endurgreiðslu gangi, þótt ekki sé hægt að útiloka það.

Benedikt Bogason

Sú niðurstaða kynni einnig að fást að kröfur Breta og Hollendinga yrðu ekki teknar til greina og að ríkið þyrfti ekki að borga neitt.

Að nokkrum kostum samanteknum segja lögfræðingarnir að kostirnir við að halda málaferlum til streitu séu helstir þeir að við það fáist lögfræðileg úrlausn sem hugsanlega hefði þau áhrif að íslenska ríkið þyrfti ekki að greiða. Ókostirnir séu aftur á móti þeir að málið gæti tapast sem myndi að öllum líkindum setja Ísland í verri samningsstöðu en nú er fyrir hendi og gæti leitt til óhagstæðari niðurstöðu.

Dóra Guðmundsdóttir

Í niðurlagi umsagnarinnar segir að auk þeirrar áhættu og óhagræðis sem fjallað er um kunni sanngirnismat og siðferðilegar skyldur í samskiptum siðmenntaðra ríkja að ráða einhverju þegar endanleg afstaða er tekin í málinu.

bjorn@frettabladid.is

Stefán Geir Þórisson


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×