Íslenski boltinn

Kristján: Hlægilegt að Arnar Sveinn fái rautt spjald

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
„Við erum svekktir, gríðarlega svekktir en við vorum bara það slakir að það rennur fljótt af manni," sagði Kristján Guðmundsson þjálfari Vals eftir 3-1 tapið gegn Fram.

Undirritaður sá Valsmenn rúlla upp Keflvíkingum fyrir nokkrum umferðum. Liðið sem spilaði þann leik var fjarverandi gegn Fram í kvöld.

„Kannski er þetta viðbúið miðað við hvað við erum komnir á leið með liðið. En þú nefnir Keflavíkurleikinn og svo þennan, það er mjög langt á milli þessara leikja. Við spiluðum vel í Keflavík en í kvöld vorum við nánast fyrir neðan allt velsæmi."

Kolbeinn Kárason sá ekki til sólar í leiknum í kvöld frekar en nokkur annar Valsari á Laugardalsvelli í kvöld.

„Ég veit ekki hvort við upplifum það þannig. Hann er náttúrulega bara að spila sinn annan leik í úrvalsdeildinni. Hann átti náttúrulega draumaframmistöðu í fyrsta leiknum og vildi fylgja henni á eftir. Hann fékk gott færi en tókst ekki að setja hann," sagði Kristján.

Valsmenn fengu tvö rauð spjöld undir lok leiksins. Jónas Tór Næs fékk sitt annað gula og Arnar Sveinn Geirsson beint rautt fyrir eftir samskipti við Almarr Ormarsson. Ekki laust við að það væri einhver pirringur í Valsliðinu í lokin.

„Nei, þetta voru svo mikil slys og það er hlægilegt að Arnar Sveinn skuli fá rautt spjald en dómarinn metur þetta svona. Það er gert mikið úr brotinu og ég er ósammála þessu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×