Íslenski boltinn

Vona að Valsmenn fái pening fyrir mig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Pétur Lýðsson hefur skoraði 8 mörk og gefið 4 stoðsendingar í Pepsi-deildinni í sumar.
Guðjón Pétur Lýðsson hefur skoraði 8 mörk og gefið 4 stoðsendingar í Pepsi-deildinni í sumar.
Guðjón Pétur Lýðsson, sem hefur að margra mati verið besti leikmaður Vals í sumar, hefur leikið sinn síðasta leik fyrir félagið. Valsmenn lánuðu hann í gær til sænska úrvalsdeildarliðsins Helsingborg en Helsingborg hefur síðan forkaupsrétt á Guðjóni eftir tímabilið.

„Ég er hrikalega spenntur og vonandi er maður að fara þarna út til að vinna einhverja titla. Ég ætla heldur betur að sýna mig en þetta er bara undir mér sjálfum komið," sagði Guðjón Pétur í gær og hann hefur ekki áhyggjur af að brotthvarf hans hafi slæm áhrif á Valsliðið.

„Ég hef engar áhyggjur af þeim þótt að ég fari. Við erum með stóran og góðan hóp og fullt af góðum leikmönnum," sagði Guðjón.

Helsingborg endaði í 2. sæti í sænsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili og er eins og er með sex stiga forystu á toppi sænsku úrvalsdeildarinnar. Guðjón á því möguleika á því að verða sænskur meistari í haust.

„Þetta er gott og vel spilandi lið sem hentar mínum leik mjög vel. Þeir eru með flottan þjálfara sem er mjög ákveðinn og agaður. Hann er búinn að fylgjast með mér frá því í janúar á þessu ári en ég vissi það ekki fyrr en í gær," segir Guðjón sem frétti fyrst af áhuga Helsingborg á þriðjudaginn og sólarhring seinna var hann kominn í nýtt félag.

„Þetta kom skemmtilega á óvart og ég flýg bara út í fyrramálið. Ég náði að kveðja strákana á æfingu áðan, hvatti þá áfram og óskaði þeim góðs gengis. Ég vona að þeir nái Evrópusæti," segir Guðjón sem er mjög ánægður með þróun mála. „Það er frábært að komast að hjá svona góðu liði og það er bara viðurkenning á því sem maður er búinn að vera að gera.".

Guðjón Pétur hefur leikið frábærlega á sínu fyrsta tímabili með Valsmönnum í sumar og er markahæsti leikmaður liðsins með 8 mörk í 17 leikjum.

Það síðasta sem Guðjón Pétur gerði í Valsbúningnum var að tryggja liðinu 1-1 jafntefli á móti Breiðabliki með frábæru marki beint úr aukaspyrnu á lokamínútu leiksins. Hann hrósar því hvernig Valsmenn tóku á þessu máli.

„Þeir stóðu sig frábærlega í þessu máli. Þeir hugsuðu fyrst og fremst um hag minn og ég vona bara að ég standi mig og að þeir fái pening fyrir mig," sagði Guðjón að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×