Enski boltinn

Hargreaves með tilboð í höndunum frá WBA

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Owen Hargreaves, landsliðsmaður Englands í knattspyrnu, stendur til boða samningur hjá West Brom í ensku úrvalsdeildinni. Hargreaves, sem glímt hefur við meiðsli undanfarin ár, fékk ekki nýjan samning hjá Manchester United í vor.

Roy Hodgson knattspyrnustjóri West Brom bíður eftir svari frá Hargreaves.

„Hvort að tilboð okkar sé nógu spennandi fyrir hann verður að koma í ljós," sagði Hodgson við blaðamenn.

Hargreaves fór í læknisskoðun hjá WBA, þó ekki þá ítarlegu læknisskoðun sem leikmenn gangast almennt undir.

„Mark Gillett, læknir okkar sem var hjá Chelsea, skoðaði hann. Hann er mjög hæfur læknir. Þetta var ekki ítarleg læknisskoðun en fagmaður skoðaði hann engu að síður," sagði Hodgson.

Hargreaves hefur glímt við meiðsli á hné undanfarin ár en hefur æft af kappi í sumar. Hann hefur meðal annars látið taka af sér myndbönd og sett á youtube sem eiga að sína að kappinn sé í toppformi.

Hargreaves hefur verið orðaður við Leicester og Rangers í Skotlandi. Sven Görn Eriksson knattspyrnustjóri Leicester sagði þó nýverið að Hargreaves myndi ekki koma til félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×