Fótbolti

City mun líklega sekta Tevez aftur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Carlos Tevez í leik með Manchester City í haust.
Carlos Tevez í leik með Manchester City í haust. Nordic Photos / Getty Images
Carlos Tevez er aftur búinn að koma sér í vandræði hjá Manchester City eftir að hann fór heim til Argentínu í leyfisleysi.

Tevez hélt til Argentínu á mánudaginn en talsmaður hans sagði við fjölmiðla í Englandi í gær að Tevez hafi í nokkur skipti reynt að ná tali af Mancini vegna ferðarinnar en án árangurs.

Leikmenn City fengu frí á þriðjudaginn en Tevez átti að mæta á æfingu í gærmorgun - sem hann gerði ekki. „Honum var sagt að þetta væri undir Mancinni komið og Carlos reyndi ítrekað að ná tali af honum. En hann fékk engin viðbrögð. Hann reyndi svo aftur að ná í hann í gær (þriðjudag) eftir að hann kom til Argentínu en ekkert gekk,“ sagði talsmaðurinn.

Talsmaður Manchester City segir að Tevez hafi fengið skýr skilaboð frá félaginu um að hann ætti að mæta á æfingar hjá félaginu til að koma sér aftur í leikform.

„Félagið hefur sett sig í samband við Carlos og hann hefur verið minntur á að til þess er ætlast að hann mæti á morgun (í dag) til að viðhalda sinni æfingaáætlun,“ sagði talsmaður City í samtali við enska fjölmiðla í gærkvöldi.

Enskir fjölmiðlar telja líklegt að Tevez verði sektaður um 400 þúsund pund vegna ferðarinnar til Argentínu. Áætlað er að hann hitti forráðamenn City á fundi á mánudag en þá verði framhaldið ákveðið.

Nýbúið er að sekta Tevez um tveggja vikna laun fyrir að neita að koma inn á sem varamaður í leik Manchester City í Meistaradeildinni fyrr í haust. Nú fyrr í vikunni bárust svo fregnir af því að Tevez sætti sig við þá refsingu.

Talið er að hann hafi viljað fara til Argentínu til að hvíla sig eftir þessa viðburðarríku vikur en hvíldaferðin hefur nú aðeins skapað honum frekari usla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×