Lífið

Gísli Pálmi límir upp veggspjöld út um allan bæ

Gísli Pálmi er eitt heitasta nafnið í hipphoppinu um þessar mundir. Kappinn sendi frá sér lagið Set mig í gang í sumar. það vakti mikla athygli og hann hefur verið að senda frá sér lög á Youtube síðan.

Gísli kemur fram á Gauki á Stöng á laugardagskvöld, en tónleikarnir eru þeir fyrstu sem hann stendur fyrir. Hann tekur þetta enda alla leið og hefur síðustu daga gengið um götur bæjarins með auglýsingaspjöld og límfötu eins og sjá má í meðfylgjandi myndbandi.

Hann kom í fyrsta skipti fram á Iceland Airwaves-hátíðinni í október og fékk frábærar viðtökur áhorfenda, sem virtust hafa legið yfir myndböndum hans, enda röppuðu þeir með hverju orði.

„Það er ótrúlegt. Fólk kann lögin, orð fyrir orð," sagði Gísli í viðtali í Poppi í gær. Hann sagði einnig tónleikana á laugardagskvöld verða alvöru og að fólk megi búast við góðri hipphoppstemningu. „Það er mjög gaman að fá tækifæri til að gera þetta og ég er glaður að við kýldum á það. Ég sá að það er eftirspurn eftir því. Það er búinn að vera mikill hiti fyrir tónleikum."

Gísli kom fram á Prikinu um síðustu helgi og var staðurinn troðfullur. Miklu fleiri komast að á Gauknum og Gísli er spenntur. Húsið opnar klukkan 22 og það kostar þúsund kall inn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.