Innlent

Margir eiga um sárt að binda á jólunum

Boði Logason skrifar
Þórhallur Heimisson, sóknarprestur við Hafnarfjarðarkirkju
Þórhallur Heimisson, sóknarprestur við Hafnarfjarðarkirkju mynd/stefán
Þórhallur Heimisson, sóknarprestur við Hafnarfjarðarkirkju, segir að margir eigi um sárt að binda nú þegar jólin nálgast. Þó að jólin eigi að vera skemmtileg og hátíð ljóss og friðar sé staðreyndin sú að margir hafa miklar áhyggjur á þessum tíma ársins.

Þórhallur segir að margir sjái fram á breytt jól vegna peningamála og fátæktar, eftir að hafa misst ástvin á árinu eða vegna skilnaðar. Hann segir að fólk, sem sé að skilja núna, sé að hafa samband og spyrja hvað það eigi að segja við börnin sín.  

„Þetta er svo skrítið, maður er að taka á móti yndislegum hlæjandi börnum og allt á að vera svo skemmtilegt og æðislegt. Svo á hinn bóginn er mikið af fólki að hringja og koma til okkar og leita ráða vegna skilnaðar. Þetta er fólk sem maður var kannski með í viðtölum í haust og var að bíða með það fram yfir jól og er svo kannski að skilja núna og veit ekki hvað það á að gera,“ segir Þórhallur. „Fólk vill gera eins gott og hægt er þegar börnin eru annars vegar. Þannig það eru ýmsar áhyggjur sem koma upp á þessum tíma ársins,“ segir hann og bendir á að tíðni skilnaða sé hærri í janúar en í desember því fólk reynir að þrauka yfir hátíðina - barnanna vegna.

En það eru ekki bara skilnaðarmál sem fólk er með áhyggjur af yfir jólin. Þeir sem hafa misst ástvin á árinu eiga oft erfitt því hlutirnir eru breyttir og öðruvísi en síðustu jól. „Þessi tími margfaldar upp kvíða og sorg, það koma allar þessar hugsanir og það rifjast allt upp. Þetta leggst þungt á sálina hjá mörgum,“ segir Þórhallur.

Hann vill benda þeim sem líður illa á jólunum og finna fyrir söknuði og einmanaleika að leita sér aðstoðar hjá sóknarpresti. „Það hjálpar að tala um hlutina og það er hægt að leiðbeina fólki. Þó að hlutirnir séu öðruvísi en það sem áður var þýðir það ekki endalok heimsins. Það er hægt að leita sér aðstoðar eins og til dæmis hjá Nýdögun, þar sem hægt er að koma og ræða hlutina ef fólki líður mjög illa.“

Hann hvetur þá sem eru í góðri stöðu og geta hjálpað öðrum að láta vita af sér. „ Við vitum kannski öll af einhverjum sem á erfitt út af einhverju, hvort sem það er út af missi eða peningamálum, þá eigum að láta vita af okkur og leita þá uppi sem eiga bágt og erfitt.“


Tengdar fréttir

Jól í skugga sorgar

Aðventan og jólin er tíminn þegar öllum á að líða vel – eða svo teljum við. Og víst er þetta yndislegur tími þegar vel gengur. Um hver jól eru þó margir sem eiga erfitt með að gleðjast og fagna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×