Innlent

Saksóknari hefur kært forvera sinn

Karen D. Kjartansdóttir skrifar
Saksóknari í efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra hefur kært forvera sinn í starfi fyrir ærumeiðingar, en hann gegnir nú embætti varasaksóknara í Landsdómi. Deilurnar munu hafa reynt mikið á samstarfsmenn. Lögreglan fer yfir málið.

Miklir erfiðleikar munu hafa verið í samskiptum þeirra Öldu Hrannar Jóhannsdóttur núverandi saksóknara efnahagsbrota hjá embætti Ríkislögreglustjóra og forvera hennar í starfi Helga Magnúsar Gunnarssonar. Helgi fór í ótímabunduð leyfi frá efnahagsbrotadeildinni í fyrra eða eftir að hann var skipaður varasaksóknari í máli Geirs Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrir Landsdómi.

Kunnugir segja að samskiptaerfiðleikar þeirra á milli hafi reynt mjög á aðra starfsmenn efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra. Málið komst þó á annað stig fyrir um þremur vikum en þá kærði Alda Hrönn Helga til Ríkissaksóknara þar sem honum er gert að sök að hafa látið meiðandi og klúr fúkyrði falla um hana fyrir framan aðra embættismenn en þau ummæli mun hún telja varða við ákveðnar greinar hegningarlaga.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu annast nú málið en yfirmaður rannsóknarinnar er Jón H. B. Snorrason sem reyndar hefur líka gegnt embætti saksóknara efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra.

Hvorki náðist í Öldu Hrönn né Helga Magnús í dag.

Fréttastofa hafði samband við Ögmund Jónasson innanríkisráðherra sem sagðist ekki getað tjáð sig um málið að svo stöddu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.