Innlent

Líkfundur við Hótel Frón: Vissu ekki að konan væri ólétt

Andri Ólafsson skrifar
Hótel Frón
Hótel Frón Mynd/Valgarður Gíslason
Konan sem grunuð er um að hafa skilið nýfætt barn sitt eftir í ruslagámi við hótel í Reykjavík í gærmorgun er 22 ára gömul og er frá Litháen. Kærasti hennar er enn í haldi.

Lögreglan sendi frá sér fréttatilkynningu laust fyrir miðnætti þar sem fram kemur að til rannsóknar sé vofveifilegt lát barns. Lík þess fannst í ruslagámi við hótel í Reykjavík þar sem kona, sem talin er hafa fætt það, vinnur.

Hótelið sem um ræðir er Hótel Frón við Laugaveg, en konan vann þar sem herberbergisþerna. Hún er 22 ára og kemur frá Litháen en er búsett í Breiðholti.

Samstarfskonur hennar sem fréttastofa ræddi við í morgun segja að enginn á hótelinu hafi vitað að konan hafi verið ólétt. Hún sé þéttvaxin og ekki hafi sést á henni.

Unnusti konunnar, sem er jafnaldri hennar og einnig frá Litháen er líka í haldi lögreglu. Samstarfsfélagi hans sagði í samtali við fréttastofu að þau hefðu nýlega slitið samvistum og byggju ekki lengur saman.

Eftir því sem fréttastofa kemst næst var það hann sem fór með konuna á bráðamóttöku Landspítalans í gærmorgun.

Þar kannaðist konan ekki við að hafa verið ófrísk og töldu læknar að hún hefði misst fóstur.

Við nánari skoðun voru læknar þess fullvissir að hún hefði fætt barn þá skömmu áður eða á síðasta sólarhring.

Lögreglu var þá þegar gert viðvart og hófst strax rannsókn og eftirgrennslan eftir barninu. Skömmu síðar fann lögregla nýfætt barn í ruslagámi við hótelið þar sem konan vinnur.

Barnið var látið þegar það fannst en talið er að það hafi fæðst lifandi.

Skýrslutökur standa nú yfir og til greina kemur að óska eftir gæsluvarðhaldi yfir parinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×