Innlent

Tekur ekki slag við Samfylkinguna

Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon
Fjármálaráðherra féll í gær frá fyrirhuguðu kolefnisgjaldi á rafskaut, koks og kol, en gjaldið var að finna í bandormi um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Ætlunin var að gjaldið skilaði 1,5 milljörðum króna í auknar tekjur árið 2013.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra fundaði í gær með embættismönnum úr fjármála- og iðnaðarráðuneytinu og fulltrúum Samtaka atvinnulífsins og fulltrúum fyrirtækjanna.

Að fundi loknum var gefið út að ráðherra hefði fallið frá gjaldinu, en saman myndu stjórnvöld og fyrirtækin eiga áfram samráð um innleiðingu evrópska viðskiptakerfisins með losunarheimildir.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins úr þingflokki Vinstri grænna ákvað Steingrímur að taka ekki slag við Samfylkinguna um þetta mál núna, enda hefur ríkisstjórnarsamstarfið verið stirt undanfarið.

Forsvarsmenn stóriðjunnar telja að með kolefnisgjaldinu hafi átt að gera starfsumhverfi fyrirtækjanna lakara hér en í viðmiðunarlöndum, þar sem fyrirtæki þurfa ekki að greiða umrætt gjald.

Þá töldu þeir að næg gjaldtaka fælist í kaupum á kolefniskvóta, en Ísland verður aðili að alþjóðlegu viðskiptakerfi með losun gróðurhúsalofttegunda í áföngum og að fullu árið 2013.

- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×