„Prufuþátturinn tókst frábærlega og það voru 300 áhorfendur í salnum," segir danski leikarinn Casper Christensen, annar helmingur Klovn-tvíeykisins, í samtali við Fréttablaðið.
Fréttablaðið greindi á dögunum frá útrás Frímanns Gunnarssonar, persónu bræðranna Gunnars og Ragnars Hanssona. Á fimmtudagskvöld fóru fram upptökur á sérstakri prufu af dönskum spjallþætti sem Gunnar Hansson stýrir í hlutverki Frímanns Gunnarssonar. Þátturinn hefur hlotið vinnuheitið Copenhagen Nights og fer fram á ensku. Hugmyndin er að Frímann fái til sín danskt frægðarfólk og er þar kóngafjölskyldan efst á óskalistanum, fari þátturinn í framleiðslu.
„Ég held að áhorfendurnir hafi kunnað vel að meta Frímann," segir Casper spurður út í viðbrögð dönsku áhorfendanna við íslenska sérvitringnum.
Gestir Frímanns í prufuþættinum voru Casper sjálfur, grínistin Lasse Rimmer og fatafellan Kira Eggers. Smá stund tók fyrir áhorfendurna að kynnast persónu Frímanns, en þegar þeir höfðu gert það og dönsku gestirnir mættu á svæðið var mikið hlegið.
Casper Christensen er einn af eigendum framleiðslufyrirtækisins Douglas Entertainment. Fyrirtækið hyggst vinna að því að koma þætti Frímanns í danskt sjónvarp, en en hvernig metur hann möguleikann á því að það takist?
„Ég er bjartsýnn enda svínvirkaði þátturinn!"
Hvenær komumst við að því hvort þátturinn fari á dagskrá í danmörku?
„Ég hef ekki hugmynd."
En hvernig heldurðu að danska þjóðin taki Frímanni?
„Þau munu elska hann."
atlifannar@frettabladid.is