Enski boltinn

Engar viðræður á milli Inter og United um Sneijder

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Wesley Sneijder í leik með Inter.
Wesley Sneijder í leik með Inter. Nordic Photos / AFP
Forráðamenn ítalska liðsins Inter staðhæfa að félagið eigi ekki í viðræðum við Manchester United um kaup á hinum hollenska Wesley Sneijder. United mun hafa hug á að kaupa Sneijder frá Inter fyrir allt að 35 milljónir punda en sá orðrómur hefur verið þrálátur í allt sumar.

Á þriðjudaginn fullyrti Daily Mirror að Inter hefði tekið tilboði United í Sneijder og að leikmaðurinn sjálfur ætti aðeins eftir að semja um kaup og kjör.

Sneijder er hins vegar staddur í Kína þar sem Inter mætir AC Milan í leik um ítalska ofurbikarinn um helgina. Þar hefur hann sagt við fjölmiðla að hann taki ekki mark á þeim sögusögnum sem hafa verið í gangi um möguleg vistaskipti hans.

Ernesto Paolillo, einn forráðamanna Inter, ítrekaði við fjölmiðla að félagið ætti í engum viðræðum við United um Sneijder. „Þetta hef ég sagt áður og ég ítreka það nú - það eru engar viðræður í gangi."

„Ef okkur berst tilboð sem ekki er hægt að hafna myndum við skoða þessi mál betur. En það á jafn mikið við um Sneijder og aðra leikmenn."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×