Innlent

Tónlistarmenn styðja Kattholt

Anna Kristine Magnúsdóttir, formaður Kattavinafélags Íslands, stendur fyrir styrktartónleikum í Fríkirkjunni í kvöld fyrir Kattholt.
Anna Kristine Magnúsdóttir, formaður Kattavinafélags Íslands, stendur fyrir styrktartónleikum í Fríkirkjunni í kvöld fyrir Kattholt. Fréttablaðið/Anton
Björgvin Halldórsson, Bubbi Morthens og Ragnheiður Gröndal eru meðal þeirra tónlistarmanna sem koma fram á tónleikum í Fríkirkjunni í kvöld. Tónleikarnir eru haldnir til styrktar Kattholti, athvarfi fyrir óskilaketti.

„Þeir sem koma fram eru allir kattaeigendur eða kattavinir. Það gefa allir vinnu sína og komust færri að en vildu til að skemmta á tónleikunum," segir Anna Kristine Magnúsdóttir, formaður Kattavinafélags Íslands. Allur ágóði tónleikanna rennur óskertur til Kattholts.

„Þetta er dýr rekstur en samkvæmt dýraverndunarlögum á að vera athvarf fyrir óskilaketti. Í dag eru Reykjavík, Seltjarnarnes og Mosfellsbær einu sveitarfélögin sem greiða Kattholti fyrir óskilaketti frá sér," segir Anna Kristine, en yfir 600 óskilakettir hafa komið í Kattholt á þessu ári. 234 fengu heimili en öðrum þurfti að lóga.

„Við verðum vör við aukið dýraníð og ætlum okkur að taka það föstum tökum. Mér hlýnaði því um hjartaræturnar yfir því hvað allir hafa verið boðnir og búnir að leggja okkur lið og þakka Björgvini Halldórssyni sérstaklega fyrir ómælda aðstoð við undirbúning tónleikanna."

Miðasala hefst klukkan 19 í Fríkirkjunni og tónleikarnir sjálfir klukkan 20. Miðaverð er 2.500 krónur. -rat

Í Fréttablaðinu í dag stóð að miðasala hæfist klukkan 17 en hún hefst klukkan 19 og tónleikarnir klukkan 20.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.