Innlent

Ríkisráðsfundur að hefjast

Mynd/GVA
Þingflokkur Vinstri grænna afgreiddi tillögu um breytingar á ríkisstjórn Íslands í gær með níu atkvæðum af tólf, en þrír sátu hjá. Breytingarnar fela í sér að Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra og Árni Páll Árnason hverfi úr ríkisstjórn og Steingrímur J. Sigfússon taki við sameinuðu ráðuneyti, en Oddný Harðardóttir verði fjármálaráðherra. Jón Bjarnason lét hafa eftir sér að fundinum loknum að hann væri ósáttur við breytingarnar og hann teldi þær gerðar til að greiða fyrir aðildarumsókn við Evrópusambandið. Hann svaraði því ekki afdráttarlaust hvort hann styddi ríkisstjórnina.

Bæði þingflokkur og flokksstjórn Samfylkingarinnar samþykktu jafnframt breytingarnar, en á flokksstjórnarfundi sögðu 77 já, 18 sögðu nei og 10 skiluðu auðu í leynilegum kostningum. Samkvæmt heimildum fréttastofu voru umræðurnar á fundinum afar heitar og takmarkaður samhugur um breytingarnar. Nokkrir tugir fólks voru þegar komnir á mælendaskrá við upphaf fundar og lýstu hug sínum eftir því sem honum vatt fram.

Bæði munu flokksmenn hafa sett fyrir sig að atvinnumálin færu öll til Vinstri grænna, auk þess sem stuðningsmenn Árna Páls andmæltu brotthvarfi hans. Hann hélt þó ræðu á tíunda tímanum í gær og hvatti flokksmenn til að samþykkja tillögur Jóhönnu Sigurðardóttur um ráðherraskiptin. Á fundinum mun hafa verið rætt að Katrín Júlíusdóttir taki við stjórnartaumunum af Oddnýju Harðardóttur í fjármálaráðuneytinu þegar hún snýr aftur úr barneignarleyfi.

Og núna klukkan hálftíu í morgun hefst Ríkisráðsfundur á Bessastöðum þar sem Árni Páll Árnason og Jón Bjarnason láta formlega af embætti og Oddný Harðardóttir tekur við embætti fjármálaráðherra. Við segjum betur frá þessu öllu saman í hádegisfréttum okkar á Stöð 2 og hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×