Innlent

Skoðun Steingríms á forsetanum: „Ég hef hana fyrir mig“

Forsvarsmenn stjórnmálaflokkanna við háborðið í Kryddsíldinni tóku því misvel þegar tilkynnt var um útnefningu á manni ársins 2011 sem í þetta sinn er Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands.

Sigmundur Davíð sagði ýmislegt í orðum Ólafs benda til þess að kosningabarátta hans sé hafin, en Ólafur vildi ekki gefa upp hvort hann ætli sér að bjóða sig fram til fimmta kjörtímabilsins í vor. Að mati Sigmundar talaði Ólafur tiltölulega vel til ríkisstjórnarinnar og einnig til fyrri ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfsstæðisflokksins sem setti neyðarlögin á sínum tíma. Þetta fannst Sigmundi merki um að hann hyggði á áframhaldandi búskap á Bessastöðum.

Ólöf Nordal varaformaður Sjálfstæðisflokksins tók enn dýpra í árinni og sagðist halda að hann ætli að bjóða sig fram að nýju.

Margrét Tryggvadóttir, Hreyfingunni, sagði hinsvegar að það væri alfarið hans persónulega mál hvort hann bjóði sig fram á ný.

„Það er voðalega erfitt að spá í hvað Ólafur Ragnar gerir á hverjum tíma," sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.

Steingrímur J. Sigfússon sagðist taka undir með Margréti: „Það hvarflar ekki að mér að ráðleggja honum, eða hafa skoðun á honum yfirleitt," sagði Steingrímur einfaldlega. Þegar hann var spurður að því hvort hann hefði þó ekki persónulega skoðun á forsetanum svaraði Steingrímur stutt og laggott: „Ég hef hana fyrir mig."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×