Innlent

Fylgdist með syrgjandi foreldrum

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Áfall og streita getur haft áhrif á þróun krabbameina samkvæmt nýrri rannsókn. Þá getur áfallið af krabbameinsgreiningu aukið hættu á hjarta og æðasjúkdómum.

Rannsóknirnar eru tvær og voru unnar af Unni Valdimarsdóttur dósent við læknadeild Háskóla Íslands ásamt samstarfsmönnum hennar í Svíþjóð og Bandaríkjunum. Leitað var svara við því hvort að streita sé einn orsakaþátta krabbameins.

Annars vegar var rannsókn þar sem fylgst var með foreldrum í Svíþjóð sem höfðu misst barnið sitt.

„Við sáum semsagt að þessir foreldrar, sem misstu börnin sín, að þau voru í aukinni áhættu á ákveðnum krabbameinum og þá sérstaklega þessum HPV sýkingartengdum krabbameinum svo sem í leghálsi," segir Unnur.

Hún segir að mögulegt sé að lífstíll fólks breytist eftir svona áfall en einnig var áhættuaukning mikil snemma eftir missinn sem bendir til að áfallið hafi áhrif á ónæmiskerfið og geri einstaklinginn veikari fyrir þessum krabbameinum.

Þá hefur önnur rannsókn sem Unnur vann að sýnt að karlmenn sem greinast með krabbamein í blöðruhálskirtli eru í margfaldri áhættu að deyja úr hjartaáfalli eða taka líf sitt og bæta þurfi eftirfylgni með þeim sem greinast.

„Það þarf að beina kröftum heilbrigðiskerfisins og stuðningsnetsins að þessum fyrstu dögum eftir greininguna því það virðist ver aða einstaklingar sem greinast með þessa tegund krabbameins séu mjög viðkvæmir fyrir alvarlegum heilsufarsútkomum á þessum tíma," segir Unnur.

Á næstu mánuðum mun Unnur hefja viðamikla rannsókn ásamt krabbameinsfélagi Íslands til að rannsaka þróun og framvindu krabbameina hér á landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×