Innlent

Talið að fjögur hundruð konur séu með sílikonið frá PIP

Erla Hlynsdóttir skrifar

Talið er að um fjögur hundruð íslenskar konur séu með sílikonpúða frá franska framleiðendum PIP sem hugsanlega geta valdið heilsutjóni. Stofnandi fyrirtækisins er eftirlýstur af Interpol.



Yfirvöld í Frakklandi greindu frá því rétt fyrir jól að hætta sé talin stafa af sílíkonpúðum frá PIP (Poly Implant Prothese).



Fyrirtækið var þriðji stærsti framleiðandi heims á sílikonpúðum sem voru með þeim ódýrustu á markaðnum. PIP fór í þrot á síðasta ári en í ljós kom að hluti púðana fór ekki í gegn um viðunandi gæðaferli og því aukin hætta á að þeir rifni.



Stofnandi fyrirtækisins, Jean-Claude Mas, er farinn í felur og hefur Interpol gefið út alþjóðlega handtökuskipun á hendur honum. Hann er 72ja ára gamall og starfaði sem slátrari þar til hann fór að framleiða brjóstapúða.



Enginn miðlægur gagnagrunnur yfir sílíkonaðgerðir er til á Íslandi en samkvæmt þeim upplýsingum sem Geir Gunnlaugsson, landlæknis, hefur fengið eru um fjögur hundruð konur á landinu með púða frá PIP, og hafa fleiri en einn læknir notað púðana við brjóstastækkanir.



Geir segir að hér á landi sé tekið á málinu af mikilli alvöru og festu. Hann fylgist náið með framvindu mála í nágrannalöndum okkar, þar sem púðarnir voru einnig notaðir. Tillögur um á hvern hátt eigi að bregðast við hér á landi eru nú til skoðunar innan embættisins í samvinnu við viðeigandi fagfólk og stofnanir.



Að mati Lyfjastofnunar hefur ekkert komið fram sem bendir til að fjarlægja þurfi alla púðana.



Áhyggjufullum konum með sílíkonpúða er bent á að hafa samband við sinn lækni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×