Innlent

4,3 milljarða mínus - meðal annars vegna lækkandi álverðs

Afkoma Reykjavíkurborgar var sjö milljörðum undir áætlun fyrstu níu mánuði ársins samkvæmt níu mánaða uppgjör Reykjavíkurborgar sem var lagt fram í borgarráði í dag. Ástæðan er aðallega lækkandi álverð.

Þar kemur fram að rekstrarniðurstaða samstæðu, A og B hluta, var neikvæð um 4,3 milljarða en áætlun gerði ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu upp á 2,9 milljarða. Viðsnúninginn er einkum að finna í fjármagnsliðnum sem var neikvæður um 19,9 milljarða vegna gengisáhrifa og lækkandi álverðs en áætlun gerði ráð fyrir 4,5 milljarða fjármagnskostnaði.

Rekstrarniðurstaða samstæðu fyrir fjármagnsliði var hins vegar jákvæð sem nemur 12,9 milljörðum sem er um 4,2 milljörðum betri niðurstaða en áætlun gerði ráð fyrir. Skýrist þetta af hærri útsvarstekjum og að gjaldskrárhækkanir OR skila einnig tekjuaukningu í samræmi við aðgerðaráætlun sem samþykkt var í mars sl.

Veltufé frá rekstri samstæðunnar nam 20,4 milljörðum sem eru 5,2 milljörðum umfram fjárhagsáætlun og stendur það vel undir afborgunum langtímalána. Handbært fé frá rekstri nam 22,4 milljörðum eða 8,3 milljörðum umfram fjárhagsáætlun.

Rekstrarniðurstaða A-hluta var jákvæð um 1,4 milljarða en áætlanir gerðu ráð fyrir að hún yrði neikvæð um 675 mkr á tímabilinu. Niðurstaðan er því talsvert betri en gert var ráð fyrir, sem nemur 2,1 milljarði, þrátt fyrir að fjármagnskostnaður sé mun hærri, vegna verðlagshækkana umfram forsendur fjárhagsáætlunar.

A-hluti Reykjavíkurborgar sýnir mikinn fjárhagslegan styrk hvort sem litið er til eiginfjárstöðu eða annarra hefðbundinna kennitalna, lausafjárstaða er sterk og uppgjörið ber með sér gott greiðsluhæfi.

Hins vegar sýnir uppgjörið að rekstur samstæðunnar er mjög háður sveiflum á álverði og gengi vegna mikilla skulda Orkuveitu Reykjavíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×