Innlent

Vinstri grænir segjast ekki mæla með eignaupptöku

Líf Magneudóttir formaður VG í Reykjavík.
Líf Magneudóttir formaður VG í Reykjavík.
Líf Magneudóttir formaður Vinstri grænna í Reykjavík segir að tilgangur ályktunarinnar um eignarhald á jarðnæði sem samþykkt var í gær hafi ekki verið sá að mæla með eignaupptöku eða blanda sér í þjóðlendumál. Henni sé einfaldlega ætlað að skapa umræðu. „Misjafnar skoðanir eru innan VG - sumar róttækar og aðrar íhaldssamar - og á það einnig við um stjórn VGR," segir Líf í samtali við fréttastofu.

Hún segir að allar raddir eigi að fá að heyrast en vitaskuld mæli stjórnin ekki með því að eignarréttur bænda sé virtur að vettugi. „Og að sjálfsögðu er gerður greinarmunur á bújörðum og hefðbundnu nytjalandi annars vegar og víðernum hins vegar," segir Líf.

Að hennar mati ætti meginreglan að vera sú að menn eigi aðeins heimili sín eða bújarðir en kaupi ekki stórar landspildur í óljósum tilgangi. „Hins vegar er löngu orði tímabært að taka samfélagsgerðina til gagngerrar endurskoðunar og þar er eignarétturinn ekki undanskilinn. Mér finnst mikilvægt að auðkýfingar geti ekki í krafti fjármagns útilokað almenning frá því að njóta náttúru landsins og gæða þess. Ég tel að almennt beri að úthluta náttúruauðlindum til skamms tíma í senn og að ferlið í kringum það sé gagnsætt og verð uppi á borðum."

Að lokum segir Líf að allar túlkanir í þá veru að VGR vilji að almennt einkaeignarhald á öllu jarðnæði heyri sögunni til verði að „skoðast í ljósi nýrrar samfélagsgerðar en ekki þannig að þjóðnýting allra jarða sé á dagskrá. Það er fráleit túlkun."




Tengdar fréttir

VG í Reykjavík: Vilja afnema eignarhald á jarðnæði almennt

Stjórn Vinstri-grænna í Reykjavík lýsir yfir "létti og ánægju með þá ákvörðun Ögmundar Jónassonar, að synja Huang Nubo leyfis til uppkaupa á íslensku landi.“ Þetta kemur fram í ályktun frá stjórninni sem birt er á heimasíðu Vinstri grænna. Stjórnin segist vona að ákvörðunin megi verða "vísir þess sem koma skal, að eignarhald á jarðnæði verði úr höndum auðmanna, hverrar þjóðar sem þeir eru.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×