Enski boltinn

Riise á ekkert sökótt við Bellamy

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
John Arne Riise, leikmaður Fulham og norska landsliðsins, segir að það sé allt í góðu á milli hans og Craig Bellamy. Þeim lenti eftirminnilega saman þegar þeir voru samherjar hjá Liverpool árið 2007.

Bellamy réðst þá á Riise með golfkylfu í æfingaferð liðsins í Portúgal. Kapparnir mætast nú í dag í fyrsta síðan þá þegar að Noregur mætir Wales í vináttulandsleik. Riise þarf þá væntanlega að hafa gætur á Bellamy í leiknum.

„Ég hef aldrei átt neitt sökótt við Craig Bellamy," sagði Riise. „Það sem átti sér stað í Portúgal lýsir ekki þeim Bellamy sem ég þekki. Við tókumst í hendur stuttu síðar og þar með var málinu lokið."

Síðar á tímabilinu skoruðu báðir leikmenn í 2-1 sigri á Barcelona í Meistaradeildinni og fagnaði Bellamy marki sínu með því að þykjast taka golfhögg.

„Ég hlakka til að hitta hann aftur," sagði Riise um leikinn um helgina. „Og svo getur vel verið að hann muni spila á hægri kantinum - þannig að við fáum líklega tækifæri til að endurnýja vináttuna."

Bellamy er nú á mála hjá Liverpool sem mætir einmitt Fulham þann 5. desember næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×