Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað Svavar Halldórsson, fréttamann á RÚV, í meiðyrðamáli sem Jón Ásgeir Jóhannesson höfðaði gegn honum.
Jón Ásgeir stefndi Svavari vegna fréttar í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins um að Fons, félag Pálma Haraldssonar, hefði vorið 2007 veitt þriggja milljarða lán til fyrirtækisins Pace Associates í Panama og að lánið hafi verið veitt í gegnum Landsbankann í Lúxemborg. Í fréttinni sagði að Pálmi, Jón Ásgeir Jóhannesson og Hannes Smárason, hafi skipulagt Panama-fléttuna fyrirfram. Það er að koma peningunum út til Panama en síðan hafi féð ratað aftur eftir krókaleiðum í vasa þremenninganna.
Jón Ásgeir taldi að fréttin yrði ekki skilin á annan hátt en að hann hafi gerst sekur um auðgunarbrot og þau ummæli væru ærumeiðandi. Hvorki hann né fyrirtæki á hans vegum hafi á nokkurn hátt komið að umræddri lántöku eða fjármagnsflutningum. Hann stefndi því Svavari Halldórssyni vegna fréttarinnar.
Héraðsdómur segir að ekki verði fallist á með Jóni Ásgeiri að hann sé sakaður um refsiverða háttsemi í fréttinni. Skoða verði fréttina í heild sinni en ekki út frá einstökum ummælum. Jafnframt beri að líta til þess jarðvegs sem ummælin spruttu úr og til nauðsynlegrar umræðu í þjóðfélaginu um orsakir og afleiðingar bankahrunsins og jafnframt hafa í huga að einhverrar ónákvæmni geti gætt þegar fjallað er um flóknar lánveitingar og viðskiptafléttur.
Svavar sýknaður í meiðyrðamáli Jóns Ásgeirs

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.