Innlent

Línur í jörðu getur kostað allt að tólf milljarða

Hödd Vilhjálmsdóttir skrifar
Meirihluti bæjarstjórnar Voga á Vatnsleysuströnd féll í dag, eftir að tillaga um að hafna loftlínu í gegnum land sveitarfélagsins var samþykkt á fundi bæjarstjórnarinnar á miðvikudagskvöld. Viðbótarkostnaður getur orðið allt að tólf milljarðar verði kröfum mætt, segir forstjóri Landsnets.

Fulltrúar E-listans greiddu atkvæði gegn tillögunni á fundinum. Þeir tilkynntu svo samstarfsflokknum, H-listanum, í gærkvöldi að ekki sé áhugi fyrir frekara samstarfi í bæjarstjórn.

Bergur Álfþórsson, fulltrúi E-lista, segir að margt þurfi að koma til ef breyting á að verða þar á og samstarfið verði tekið upp að nýju, meðal annars að krafa H-listans um að Suðurnesjalína tvö verði grafin í jörð í landi Voga verði dregin til baka.

Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets, segir að enginn möguleiki sé á að línan verði grafin í jörð í landi sveitarfélagsins. Kostnaðurinn við það verður um tólf til þrettán milljarðar.

„Fyrst og fremst vegna kostnaðar. Hlutverk Landsnets samkvæmt lögum er að byggja kerfið upp á hagkvæman og öruggan hátt. Það er samfélagslega stór ákvörðun að leggja línur í jörðu," segir Þórður.

Þórður segist vel skilja að sveitarfélög vilji sjá línur í vaxandi mæli í jörðu. Afleiðingin af því, væri það gert, hvað varðar gjaldskrá til almennra notenda og stórnotenda yrði þó slík að það myndi hafa umtalsverð áhrif hvað raforkureikning notenda.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×